153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn.

96. mál
[15:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að koma hér örstutt upp og lýsa því yfir hvað ég er ánægður með að verið sé að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum þennan rétt foreldra til að annast börn sín og þann rétt barna að foreldrar geti sinnt þeim. Ég vona að starfshópurinn hugsi svolítið líka út í stöðu einstæðra foreldra og hvaða möguleikar þar eru, hvort eitthvað þurfi að gera til þess að jafnvel opna möguleika á að ömmur og afar geti aðstoðað í slíku vegna þess að oft lendir þetta á einum einstakling ansi mikið. Við vitum að það er oft mikill kynjahalli á því hvernig umsjónin er með börnunum. Ég vona bara að þetta mál fái góða og fljóta meðferð í þinginu því hér er um mikla réttarbót að ræða.