142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

aðildarviðræður við ESB.

[13:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Í sannleika sagt fannst mér þetta svar það loðið að ég hefði jafnvel getað dregið þá ályktun að hæstv. utanríkisráðherra útilokaði ekki að halda viðræðunum einfaldlega áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu, sem mér finnst út af fyrir sig fagnaðarefni. Mér fannst hann opna á að það gæti hugsanlega orðið niðurstaða af viðræðum hans. Það er ágætt að einhver annar tali við útlendinga en bara hæstv. forseti þjóðarinnar — það er ágætt að utanríkisráðherra geri það líka. Ef það verður niðurstaða hæstv. utanríkisráðherra af samræðum við kollega sína í Evrópu að halda beri viðræðunum áfram og leggja síðan fullbúinn samning undir dóm þjóðarinnar þá væri það auðvitað mjög æskileg niðurstaða. Ég efast um að það sé fyrirætlunin miðað við fyrri orð hæstv. utanríkisráðherra og þekkta andúð hans á mögulegri Evrópusambandsaðild.

Ég vil því bara minna hæstv. utanríkisráðherra á að í stefnuskrá Framsóknarflokksins stendur „að ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“ (Forseti hringir.) og í stefnuskrá hins stjórnarflokksins stendur að kjósendur ákveði „í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) á kjörtímabilinu“ hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram. Er þetta ekki skýrt? Ber ekki að gera þetta?