145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hingað kominn til þess að mæla fyrir frumvarpi sem lagt er fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og nýtur að sjálfsögðu stuðnings beggja flokka. Ég tek eftir því að þingmaðurinn tjáir sig ekki sjálf um það hvaða skoðun hún hefur á málinu og fer eins og köttur í kringum heitan graut um það efni. Fyrir liggur stuðningur hennar flokks og hún sem formaður hans hlýtur að geta gert grein fyrir stefnu flokksins hvað það snertir, hvort þau hafa undið ofan af fyrri stefnu um að það eigi að selja hlutinn (Gripið fram í.) eða hvort þeirri stefnu er áfram fylgt. En hvort sem það er stefna Vinstri grænna að ríkið skuli eiga bankann með húð og hári og þá hafa stjórn og afskipti af honum, að við förum aftur í gamla tímann þar sem stjórnmálin reyna að hafa áhrif á jafnvel útlánastefnu einstakra banka, þá er það ekki tímabil sem hugnast (KJak: Á að svara spurningunni?) mér sérstaklega. — Spurningunni er auðveldlega svarað: Að sjálfsögðu er fjárlagafrumvarpið lagt fram með stuðningi beggja stjórnarflokka.