149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að grípa niður í fjárlagafrumvarpinu á bls. 111 þar sem bent er á að almenn úrræði vegna úttektar iðgjalda sem greidd eru í séreignarlífeyrissjóð til kaupa á íbúð eða greiða lána, falla niður um mitt næsta ár. Við það er líklegt að dragi úr greiðslum í slíka sjóði síðari hluta árs og leiði til hækkunar á tekjuskattsstofni upp að kannski 1,1 milljarði kr. Það er áhugavert inngrip með tilliti til núverandi ástands húsnæðismála þar sem fólk hefur greinilega verið að nýta þennan viðbótarsparnað til þess að borga niður húsnæðisskuldir. Það er áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefur á skuldastöðu heimilanna og jafnvel hvort að fólk kaupi íbúðir. Það hefur áhrif á hvort fólk hefur greiðslugetu til þess að borga af lánunum sínum og væri áhugavert að heyra dálítið um það. Þetta er ekki lítið mál fyrir marga því að kerfið okkar er uppbyggt á þann hátt — og ég sé líka í fjárlagafrumvarpinu að hugað er að einhverjum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu — að þegar við komumst á lífeyri er í rauninni gert ráð fyrir því að við eigum húsnæði, að við séum í skuldlausu húsnæði. Ef við erum með leigukostnað eða erum enn að borga af húsnæðislánum duga lífeyristekjurnar ekkert fyrir því. Þannig að við þurfum að leggja þennan grunn rosalega skýrt. Hugum vel að honum.

Aftur aðeins að kostnaðarmati aðgerða. Mér finnast þær rosalega mikilvægar fyrir þingið til þess að við þingmenn vitum hvað við erum í alvörunni að samþykkja. Hérna leggur ríkisstjórnin fyrir okkur ákveðnar aðgerðir og segir: Ég þarf 19 milljarða í þetta. — Eigum við bara að segja ókei og spyrja ekki neitt nánar eða fá fleiri upplýsingar? Ég hef oft spurt um nánara kostnaðarmat en hef yfirleitt ekki fengið það. Það er til í stærri og skipulegri framkvæmdunum eins og í vegamálum o.s.frv., þar erum við með góðar áætlanir (Forseti hringir.) um hvað ábatinn af þeim aðgerðum kostar okkur. En það vantar í langflestu öðru.