152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér var spurt hversu langur umsagnarfresturinn væri, það er til 9. desember. En eins og ég sagði áðan og vil ítreka, af því að hér var talað um að ekki væri tekið mark á afsökunarbeiðni af því að verið væri að kenna öðrum um: Það er ekki verið að kenna öðrum um. Ég tek þessa ábyrgð. Mér var leiðsagt, vissulega, en ég tek ábyrgð á því að hafa hlustað á það. Það er alveg þannig. Þetta eru algerlega mín mistök. Ég get ekki fullyrt að við höfum alla tíð og alltaf vitað það, hvort sem það er í fjárlaganefnd eða annars staðar, að hagaðilar hafi ekki fengið beiðnir um eitthvað slíkt áður. Þetta er eitthvað sem mér var tjáð. En ég tek ábyrgð á þessu og ég vona svo sannarlega, þótt þetta sé, alveg eins og hér hefur komið fram, vond venja, hafi þetta verið venja — og ég tek það algjörlega til mín að þetta er ekki gott start á nefndarstörfunum. En eins og ég segi, ég get ekki annað gert en beðist afsökunar og ég vona að í framhaldinu eigum við í fjárlaganefnd gott samstarf. Ég trúi því og treysti.