152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hér var talað um einhvern grundvallarmisskilning þá held ég að það hafi verið grundvallarmisskilningur hjá Samfylkingunni að við þyrftum að taka 100 milljarða aukalán í fyrra og aftur á þessu ári, eins og boðað var af Samfylkingunni. Það var einfaldlega rangt. Það var sagt að við værum ekki að gera nálægt því nógu mikið til þess að halda utan um fyrirtæki og fólk. Það reyndist rangt. Það var grundvallarmisskilningur. Það sýna tölurnar í dag. Á húsnæðismarkaðnum gerðist bara nákvæmlega það sama á Íslandi og annars staðar þar sem vextir lækkuðu hressilega. Í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum hefur eignaverð hækkað. Þetta sést á hlutabréfamörkuðum og annars staðar. Sama gerðist hér og annars staðar. Ríkisstjórnin, sem nú heldur áfram, hefur þvert á það sem hv. þingmaður sagði náð frábærum árangri í húsnæðismálum og ég vísa til almenna íbúðakerfisins í því sambandi. Sömuleiðis til hlutdeildarlánanna og þess hversu vel þau úrræði hafa bæði verið smíðuð og þeim verið vel tekið. Það er mjög mikið í pípunum til að tryggja að á grundvelli þeirra stuðningskerfa verði margar nýjar íbúðir reistar. Ég held að sveiflan sem við höfum séð á húsnæðismarkaðnum muni jafna sig þar sem vextir hafa tekið að hækka að nýju og þá mun áhrifa fasteignamarkaðarins á verðbólguna hætta að gæta með þeim hætti sem við höfum upplifað að undanförnu.