152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að fá að heyra sleginn svona ábyrgan tón varðandi útgjaldahliðina. Ekki er hægt að líta fram hjá því að útgjöldin hafa vaxið mjög verulega undanfarin ár. Sumt af því var einfaldlega óhjákvæmilegt. Það var gengið of langt í niðurskurði á árunum eftir fall fjármálafyrirtækjanna. Fjárfestingar ríkisins voru því sem næst alveg stöðvaðar. Það var gengið mjög nærri Landspítalanum. Við höfum á hverju ári verið að vinna þá stöðu aftur upp.

Þess vegna segi ég: Að hluta til var algjörlega óhjákvæmilegt að auka útgjöldin að nýju en því eru sett einhver efri mörk. Það er mjög skynsamlegt að spyrja: Hvernig getum við haldið áfram að auka skilvirknina án þess að setja alltaf fleiri krónur á bak við verkefnin? Ég held að við höfum fengið alveg einstakt tækifæri með þeirri tæknibyltingu sem er að eiga sér stað, sjálfvirknivæðingu ferla o.s.frv. Svo lítið dæmi sé tekið getur þú bara farið inn á Heilsuveru og endurnýjað lyfseðilinn þinn eða pantað tíma hjá heilsugæslunni. Allt sem við erum að gera undir hatti Stafræns Íslands er til vitnis um möguleikana sem þarna eru og við erum bara rétt byrjuð að skrapa yfirborðið.

Ég var áðan í andsvari við hv. þingmann um hvernig við vinnum með gögn hins opinbera. Við getum notað gögnin svo miklu betur til að taka betri ákvarðanir og þannig sparað fé og valið fyrr réttu leiðirnar. Við eigum ofboðslega mikið eftir óunnið í öllu þessu.

Varðandi fjölgun starfanna þá hefur vinnumarkaðurinn á Íslandi líka verið að stækka og ekki er hægt að segja að það sé áberandi hjá ríkinu að það sé að bæta við sig störfum sem séu langt umfram hlutfallslegt vægi ríkisins (Forseti hringir.) í stærð vinnumarkaðarins á Íslandi.

En það er sem sagt með skilvirkni, tæknivæðingu og sjálfvirkni (Forseti hringir.) sem ég held að við getum sótt mikla framleiðni.