152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að taka undir með hv. þingmanni. Ég er sammála því að stundum er ríkið of seint af stað, of hægt í gang. Kannski er það þess vegna sem maður ákvað að gefa sig að stjórnmálum og starfa á þessum vettvangi, til að veita ekki bara Stjórnarráðinu öllu, heldur öllu kerfinu, öllum opinberu stofnununum ákveðið aðhald. Ég hef barist fyrir því að við færum í umbótaverkefni þvert á ráðuneyti til að gera betur, vinna hraðar og ég gleðst yfir því að finna metnaðinn sem er hjá opinbera kerfinu, hjá forstöðumönnum, hjá þeim sem eru að leiða verkefni um allt og bara almennt hjá starfsmönnum, til að fá tækifæri til að gera betur. Fólk sér alveg að hægt er að gera hlutina með skilvirkari hætti. Oft þarf ekki annað en að blása því ákveðinn baráttuanda í brjóst og skapa síðan skilyrði. Það geta verið grundvallarskilyrði eins og bara það að öll upplýsingatæknikerfi séu samtengd og fólk geti unnið í hópum. (Forseti hringir.) Um leið erum við að reyna að breyta stofnunum sem vinnustöðum (Forseti hringir.) til að viðhalda góðum starfsanda og starfskröftum og við erum bara rétt að byrja.