140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Ég geri mér það alveg ljóst að sú tala sem hv. þingmaður nefndi eru brúttóskuldir og að því gefnu að forsendur fjárlaga um áætlaðan hagvöxt upp á 3,1% gangi eftir verður þróunin væntanlega sú sem lýst er í fylgiritinu. En ég benti á það í ræðu minni áðan að önnur spá um hagvöxt kemur frá Seðlabankanum og er til muna lægri. Að teknu tilliti til hennar yrði þetta með öðrum hætti. Það er því töluverð óvissa um þennan gríðarlega mikilvæga þátt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann rétt í lokin varðandi safnliðina, hvort við getum þá ekki vænst þess í tengslum við afgreiðslu fjárlaga núna að fyrir liggi það regluverk sem gilda á um úthlutun þess fjár sem markað verður til hinna svokölluðu safnliða. Það regluverk liggur ekki fyrir enn um hvernig ráðstafa á fé á þeim vettvangi sem við höfum sammælst um.