155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[12:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst reyndar dálítið ánægjulegt að það sé að gerast núna, að hæstv. fjármálaráðherra og þingmaður sem situr með mér í fjárlaganefnd séu að opna á samtal um kosti og galla gjaldmiðilsins okkar og annarra möguleika. Auðvitað er það ekki þannig að það sé einhver ein töfralausn í þeim efnum. Það er ekki þannig að sólin muni skína alla daga með því að við yfirgefum íslensku krónuna. Það er hins vegar svo í mínum huga að kostirnir eru yfirgnæfandi fleiri. En ég hef saknað þess í pólitískri umræðu hvað við erum lítið að beina kastljósinu að þessum þætti efnahagsmálanna. Íslenska ríkið skuldar í einhverju samhengi hlutanna ekkert sérstaklega mikið. Hlutfall vaxtakostnaðar hjá íslenska ríkinu er hins vegar á pari við lönd sem eru með allt niður um sig, Grikkland og Ítalíu.

Ég heyri það sem hv. þingmaður segir um íslenska hagvöxtinn. En við vitum það líka um leið, þegar við skoðum hver hagvöxturinn er á mann, að hann er sá sem hann er núna af því að hann er að miklu leyti byggður upp á því að hér er mikil og hröð fólksfjölgun. Þetta hefur með ferðaþjónustuna að gera. Við erum eilíflega að tala um að fjölga eggjunum í körfunni, en ferðaþjónustan er orðin stór hluti af okkar efnahagslífi og þá erum við líka útsettari fyrir áföllum af því að hún er sveiflukennd atvinnugrein. Ég hef saknað þess að ríkisstjórnin hafi ekki tekið sér stærri hlut í stefnumótun á þessu sviði. Við stöndum í þakkarskuld við þessa atvinnugrein, hún reyndist okkur gríðarlega vel eftir hrun. En það er auðvitað þannig að hún krefst mannafls. Við flytjum inn fólk til landsins sem er að ferðast og við flytjum líka inn fólk til að vinna. Það hefur líka sínar dekkri hliðar og áhrif hvað varðar efnahagsmálin.