145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir góðan punkt, þó svo að mér finnist ekkert þægilegt að fá hann. Þetta er nákvæmlega málið, hvað vill hv. Alþingi gera? Við erum búin að reyna ýmislegt. Við höfum til dæmis sett fyrirvara á ákveðnar stofnanir vegna þess að þær hafa ekki verið með sjálfbæran rekstur, svo dæmi sé tekið. Við höfum tekið ýmislegt út úr fjáraukanum við litlar vinsældir og mikil slagsmál. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur staðið fyrir því og fengið litlar þakkir fyrir, en það er svo sem ekki markmið þarna að fá þakkir hjá einhverjum. En þetta er auðvitað spurning því að við erum öll í orði kveðnu sammála um markmiðin, en síðan vantar nokkuð upp á að við stöndum við þau þegar til stykkisins kemur.

Ég þarf ekki annað en að leggja út frá þessu hér vegna þess að við eigum eftir að fara yfir þessi mál og það munum við gera, til þess er nú nefndarstarfið.