148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Starfsmenn alþjóðlegra hjálparsamtaka hafa óttast að alþjóðasamfélagið væri búið að gleyma hinu hörmulega borgarastríði í Sýrlandi. Stríðið þar hefur svo sannarlega minnt á sig að undanförnu. Nýjustu árásir stjórnarhers Sýrlands á saklausa borgara, börn, konur og menn, í Austur-Ghouta fá okkur svo sannarlega til að muna eftir þessu hræðilega viðbjóðslega stríði.

Austur-Ghouta breyttist fyrir tæpri viku í nákvæmlega það sama og þegar fjöldamorðin í Srebrenitsja áttu sér stað árið 1995. Íbúar borgar í túnfæti Evrópu eru innikróaðir og einfaldlega teknir miskunnarlaust af lífi. Stjórnarher Assads Sýrlandsforseta svífst einskis þegar kemur að kaldrifjuðum hernaði gegn börnum og fær fullan stuðning frá rússneskum stjórnvöldum í þann voðaverknað. Og eins og skömmin sé ekki næg tekur steininn úr þegar Rússland, Kína og Bandaríkin, fastaríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, misnota neitunarvald sitt í ráðinu og halda því þar með í gíslingu og bera því svo sannarlega ábyrgð á því að linnulaus stríðsrekstur gagnvart börnum viðgangist; eins og fráfarandi mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í kveðjuræðu sinni í gær: Mikil er skömm og ábyrgð þessara ríkja.

En berum við, íslenskir þingmenn, einhverja ábyrgð þegar kemur að stríðsátökum í Sýrlandi? Já. Við þingmenn berum sannarlega ábyrgð á að milda neyð sýrlensks almennings vegna stríðsátakanna. Við berum ábyrgð á að tryggja að við Íslendingar tökum á móti fleira fólki sem flýr stríðshörmungar og leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd. Við berum ábyrgð á að tryggja fólki sem hingað kemur á flótta mannúðlegar aðstæður samkvæmt lögum, viðunandi málsmeðferð og lagalegan rétt sem tryggir mannréttindi fólks á flótta. Við þingmenn herlausrar þjóðar berum líka ábyrgð á því, í okkar alþjóðlega starfi á erlendum vettvangi, að tala ávallt fyrir friðsamlegum lausnum, af virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlegum sáttmálum. Við berum ábyrgð á því að tala gegn stríðsrekstri og fyrir friði og stöðugleika í hvívetna.

Íslensk stjórnvöld bera líka (Forseti hringir.) ábyrgð á því að setja frið og virðingu fyrir mannréttindum í forgang í utanríkisstefnu sinni. Ég fagna því að fulltrúar íslenskra stjórnvalda lýsa yfir þungum áhyggjum yfir ástandinu í Sýrlandi og Jemen en óska eftir því að íslensk stjórnvöld mótmæli skýrt og afdráttarlaust stuðningi rússneskra stjórnvalda við hryllinginn í Austur-Ghouta í Sýrlandi og framgöngu Rússa, Bandaríkjamanna og Kína í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)