138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að það eru mikilvægar upplýsingar sem komið hafa fram nú á undanförnum dögum. Við virðumst alltaf telja að við séum búin að fullræða þetta mál og svo koma nýir vinklar. Það kom mjög skýrt fram í orðum formanns fjárlaganefndar fyrir helgi þegar ég spurði hann og þá örfáu stjórnarliða sem fóru upp í umræðunum hvort fjárlaganefnd hefði eitthvað rætt áhrif neyðarlaganna á þetta mál. Það eina sem ég gat fundið í nefndaráliti frá fjárlaganefnd og síðan í þessum fjórum minnihlutaálitum frá efnahags- og skattanefnd um áhrif neyðarlaganna var í nefndarálitum frá hv. þm. Pétri Blöndal, Tryggva Þór Herbertssyni og Birki J. Jónssyni þar sem þeir settu upp töflu með einföldum útreikningum um það hver áhrifin gætu orðið. (Forseti hringir.) Ég held að það sé mjög mikilvægt að kalla þessa lögfræðinga (Forseti hringir.) sem hafa verið að tjá sig um þetta mál á fund nefndarinnar (Forseti hringir.) og fá þeirra álit því að það virðist ekki hafa verið fullrætt (Forseti hringir.) áður en málið kom til 2. umr.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)