138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri auðvitað léttur leikur að nefna ýmislegt í þessu sambandi. Það væri t.d. hægt að bæta kjör opinberra starfsmanna með þeim 100 milljónum sem ríkissjóður þarf að reiða af hendi á degi hverjum. Það væri hægt að auka velferðarstarfsemina. Það væri hægt að fara í arðbærar fjárfestingar eins og samgöngumál, sem nú hafa verið sett í hraðfrystingu á næsta ári o.s.frv.

Þessi mál eru hins vegar mjög vel rakin af fulltrúum Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd Alþingis og ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér mjög vel það sem þar er sagt vegna þess að ég held að það sé sannleikurinn. Því miður ákvað meiri hluti hv. fjárlaganefndar einhverra hluta vegna að koma í veg fyrir að þessi sannleikur fengi að líta dagsins ljós innan vébanda fjárlaganefndar.