150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fréttir berast nú af því að allt sé komið í hnút í viðræðum sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga og bætist það þá í sarpinn því að út af standa enn ógerðir samningar við sérfræðilækna og hjúkrunarheimili varðandi daggjöld. Þeir samningar hafa verið lausir mánuðum saman og sjúkraþjálfarar í þessu tilviki hafa sagt hingað og ekki lengra og neita að starfa eftir útrunnum samningi. Þetta bætist við endurteknar ákúrur vegna starfsemi Sjúkratrygginga, m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar á síðasta ári sem gerði alvarlegar athugasemdir við fagleg vinnubrögð Sjúkratrygginga og dró í efa að þar væri unnið með hámarksskilvirkni og hagkvæmni heilbrigðiskerfisins að leiðarljósi. Í dag birtist úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG sem er nokkuð á sama veg, þ.e. að verulega skorti á fagleg vinnubrögð innan Sjúkratrygginga.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir ráðherra heilbrigðismála þegar ekki tekst að ljúka samningum um jafn viðamikinn þátt heilbrigðiskerfisins og hér er um að ræða. Þegar við leggjum þetta saman, rekstur hjúkrunarheimila, samninga við sérfræðilækna og nú síðast samninga við sjúkraþjálfara, slagar þetta í um 30% af útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári hverju. Það hlýtur að vera ótækt með öllu að svo viðamikill þáttur í starfsemi heilbrigðiskerfisins sé unninn án samninga.

Ég treysti því að ráðherra beiti sér fyrir því að hér verði gerð bragarbót á og tryggt verði að starfsemi Sjúkratrygginga sé með þeim hætti að hún uppfylli lágmarkskröfur um fagleg viðmið en ekki hvað síst að tryggja sem hagkvæmustu og skilvirkustu innkaup hins opinbera á heilbrigðisþjónustu.