145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrstu níu mánuði þessa árs fluttu 3.200 íslenskir ríkisborgarar frá landinu, þ.e. 1.130 fleiri en fluttu til landsins. Einungis fimm sinnum áður hefur þessi tala brottfluttra umfram heimkomna verið hærri en það var allt í kjölfar kreppuára. Þetta kemur fram í fréttum í dag. Þar er vitnað í Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir að eitthvað djúpstætt sé hér á ferðinni og vísbendingar séu um að margt háskólamenntað ungt fólk flytji ekki heim eftir nám eða flytji úr landi.

Í því samhengi langar mig að fagna því að skóflustunga var tekin að nýju sjúkrahóteli við Landspítalann, sem er stór áfangi og fyrsta framkvæmdin af mörgum í uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Aðbúnaður starfsfólks í núverandi húsnæði er óviðunandi og ein ástæða þess að menntað fólk í heilbrigðisvísindum leitar annað. Því er brýnt að uppbyggingaráætlanir við Hringbraut gangi eftir, enda ekki hægt að horfa fram hjá því að brottflutningur er staðreynd.

Annað sem ég tel mjög mikilvægt, sem snertir bæði uppbygginguna við Hringbraut og brottflutning ungs fólks, er borgarþróun. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi borgarsamfélagsins og hvernig gæði þess ýtir undir nýsköpun og tækniframfarir. Í Reykjavík, og í raun á höfuðborgarsvæðinu öllu, liggja mörg tækifæri til betri nýtingar landsvæðis og þéttingar innan núverandi byggðamarka. Við höfum alla burði til að bjóða vel menntuðu ungu fólki upp á mikil lífsgæði en til þess að svo megi verða þurfum við að höggva á hnúta og leysa gömul deilumál. Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði nýverið í erindi um uppbyggingu og staðsetningu spítalans að það væri ekki sjálfgefið að stórt byggingarland væri laust miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu eins og hér er með lóð spítalans á eina höndina, tvær meginstofnbrautir á aðra, fyrirhugaða samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins á þá þriðju og tvo háskóla í göngufæri og uppbyggingarsvæði tækni- og þekkingarfyrirtækja þar í kring. Hún sagði að þetta gæti bara ekki orðið mikið betra.

Ég tek (Forseti hringir.) heils hugar undir þetta og hvet þingmenn og þingheim allan til að ýta kredduhugsun til hliðar, byggja upp Vatnsmýrina (Forseti hringir.) og sætta sig við staðsetningu Landspítalans við Hringbraut, því að það er það sem mun skera úr um hvort Ísland verði samkeppnishæft við aðrar borgir.


Efnisorð er vísa í ræðuna