151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vangavelturnar um ríkisfjármálin. Það er afar mikilvægt að við tökum þessa umræðu þó að hér hafi ekki verið bein fyrirspurn. Ríkisendurskoðandi segir að efnahagsreikningurinn gefi okkur glögga mynd af stöðu ríkissjóðs. Ég tel það eitt af framfaraskrefum í því þegar við tókum upp lög um opinber fjármál að við fórum að eignfæra og ekki gjaldfæra allt á sama fjárlagaárinu. Ég ætla nú bara að vitna í ríkisendurskoðanda sjálfan sem segir að eiginfjárstaða ríkissjóðs sé góð þar sem eignir standi undir skuldum og vel það. Þetta er afar mikilvægt. Við höfum blessunarlega lagt áherslu á það undanfarin misseri að greiða niður skuldir þannig að viðnámsþrótturinn hvílir þarna á fjárhagslegri stöðu ríkissjóðs. Það er þess vegna sem við getum mætt þessari djúpu kreppu jafn duglega (Forseti hringir.) og við erum raunverulega að gera.