151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[15:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ágæta yfirferð yfir ríkisreikninginn og það sem honum tengist. Ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það. Ég held að þetta sé allt saman gert rétt. En ríkisreikningur segir einhverja sögu líka og það verður ekki horft fram hjá því að árið 2019 var kannski ekki eins hagfellt og efni hefðu getað staðið til. Áður hefur verið komið að því í þessari umræðu að tæplega 40 milljarða halli varð á ríkissjóði í stað tæplega 30 milljarða afgangs. Þetta gerðist þrátt fyrir að hagvöxturinn hafi verið rétt tæp 2% árið 2019 sem kemur í kjölfar eins mesta hagvaxtarskeiðs Íslandssögunnar. Sé litið í baksýnisspegilinn held ég að óhjákvæmilegt sé að benda á að menn hafi kannski verið fullbjartsýnir og farið fullgeyst í því að þenja út ríkisútgjöld og rekstur ríkisins þar með. Það er alltaf erfitt að stilla sig af þegar allra best gengur og eiga síðan í vanda með að draga saman útgjöldin þegar verr fer að ganga.

Spurningin til hv. þingmanns í framhaldinu er þessi: Erum við ekki komin á ystu nöf varðandi ríkisútgjöldin? Vorum við ekki komin á það stig þegar á árinu 2019 og árin þar á undan? Og burt séð frá öllu Covid og því sem því fylgir er þá ekki nauðsynlegt (Forseti hringir.) að fara að huga að verulegum ráðstöfunum varðandi ríkisfjármálin sem felast í því að draga úr (Forseti hringir.) ríkisútgjöldum? Og eftir atvikum, ef það tekst ekki, er þá ekki nauðsynlegt að hækka skatta?