138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:12]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mun tala örstutt. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu. Ég hef fullan skilning í því að í því árferði sem við búum þurfum við að sjálfsögðu að nýta öll tækifæri sem möguleg eru til að spara og hagræða og nota öll tækifæri jafnframt til að breyta til batnaðar. Mér finnst líka að við eigum að reyna að nýta tækifærin þannig en það er náttúrlega nauðsynlegt að við höfum þá bæði fagleg og efnahagsleg rök fyrir því sem við gerum. Auðvitað er það fólk sem starfar við dómstólana úti á landi þeim stöðum afskaplega mikilvægt og sú starfsemi sem fram fer þar, afleidd starfsemi og í raun og veru afleidd störf sem tengjast þessum dómstólum eru hverjum stað sem nýtur þeirrar þjónustu að hafa dómstól, afar mikilvæg. Við þurfum að hugsa svolítið um það hvort við séum ekki örugglega að hagræða, hvort þetta sé örugglega hagræðingaraðferð sem við erum að fara í, (Forseti hringir.) því að kostnað við ferðir dómara, vitna og annarra þarf líka að reikna með inn í þetta.