149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[16:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um þingsályktunartillögu frá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og flokkssystkinum hennar í Samfylkingunni. Þetta er uppbyggileg tillaga sem ég vona að þingið bregðist vel við og samþykki sem allra fyrst.

Hugmyndafræði okkar um að fangavist eigi að vera betrunarvist, eigi að skila einstaklingum sem betri þegnum til þátttöku í samfélaginu, kemst hvorki lönd né strönd ef við hugum ekki alvarlega að þeim þáttum.

Samkvæmt upplýsingum sem lágu fyrir í sumar hefur t.d. ekki verið starfandi geðlæknir í fangelsum landsins frá árinu 2013. Þetta eina atriði er alvarlegt. Ég þykist þó vita að sú þjónusta sé veitt með einhverjum afbrigðum ef nauðsyn ber til en ekki liggja fyrir skýringar eða skýrar upplýsingar um hvernig það er gert eða hvort raunverulegt skipulag er til varðandi þennan mikilvæga þátt í heilbrigðisþjónustu við fanga. Hér þarf að bæta um betur.

Að mati dómsmálaráðuneytis eru mannréttindi fanga ekki tryggð vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið telur sem sé að framkvæmd laga um fullnustu refsingar tryggi ekki með fullnægjandi hætti réttindi fanga samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Það hefur líka margoft komið fram í athugunum. Þetta kom fram í svari ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis sem gert hefur athugasemdir við þessi mál í könnunum sínum gagnvart Ríkisendurskoðun. Og nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum hefur gert ítrekaðar, alvarlegar athugasemdir við ástandið í íslenskum fangelsum.

Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er framboð á fagfólki í fangelsunum af mjög skornum skammti og alvarlega naumt. Það eru samtals þrír sálfræðingar í hlutastarfi í tengslum við öll fangelsi landsins. Þeir koma þar við einu sinni í viku jafnvel, tvisvar eða með óreglulegum hætti og hafa í fæstum tilfellum fasta viðveru. Það er afleitt.

Sömu sögu er raunar að segja um læknis- og hjúkrunarfræðiþjónustu sem veitt er eftir mati án fastrar viðveru. Í neyðartilfellum eru fangar fluttir á nærliggjandi heilbrigðisstofnun. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar telur að 50–75% fanga eigi við geðræn vandamál að stríða af einhverju tagi og hefur látið þau ummæli falla að á hverjum tíma séu fimm eða sjö einstaklingar sem ekki ættu að vera í fangelsi heldur á heilbrigðisstofnun. Þar er hins vegar ekki úrræði að sækja þar sem heilbrigðisstofnanir telja sig ekki vera í stakk búnar til að taka við þeim hópi.

Félagsráðgjafar geta gegnt afar mikilvægu hlutverki innan fangelsanna og ekki síst að afplánun lokinni í tengslum við eftirfylgni, og gera þeir það eftir föngum. Þeir vinna m.a. að lausn á félagslegum og persónulegum vandamálum fanganna, sem oft eru umtalsverð, flókin, viðkvæm og tímafrek. Tveir félagsráðgjafar starfa í öllum fangelsum landsins og koma að eftirfylgni. Það sér hver maður að það er ófullnægjandi.

Vísir er að námsráðgjöf fyrir fanga en einn námsráðgjafi í hálfu starfi vinnur fyrir öll fimm fangelsi landsins. Ljóst er að sá þáttur fær ekki rými til þess að mæta þörf eða mikilvægi til að breyta lífi fanga í farsæla átt að lokinni afplánun.

Það þarf ekki að koma á óvart að geðræn vandamál séu íþyngjandi þáttur innan fangelsa. Það er raunin bæði hér á landi og erlendis. Norskar rannsóknir sýna að um 35% fanga hafa sýnt merki um geðrænan vanda fyrir afplánun og gengið til meðferðar, og örlítið lægra hlutfall hafði fundið fyrir þörf en ekki verið meðhöndlað fyrir afplánun. Þannig má ætla að ósvaraðri þörf sé til að dreifa í ríkum mæli innan veggja fangelsanna.

Það er líka stór munur á þeim sem afplána í fyrsta sinn og þeim sem afplána endurtekið þar sem þörfin er mun meiri hjá síðarnefnda hópnum. Það er einnig stór munur á geðheilbrigði þeirra sem afplána styttri dóma og þeirra sem afplána langa dóma. Það þarf ekki að koma á óvart.

Þeir fangar sem yngri eru greina líka frá betra heilsufari en eldri fangar hvað varðar geðheilbrigði. Þar munar talsverðu. Fjórðungur fanga sem afplánar í norskum fangelsum neytir lyfja við geðrænum vanda og hlutfallið er enn hærra hjá þeim sem afplána dóma sem eru lengri en fimm ár.

Herra forseti. Við tökumst hér á við viðkvæmt og krefjandi samfélagsverkefni og sýnt þykir að við getum og þurfum að bæta umgjörðina. Að sjálfsögðu er tekið undir þau markmið sem sett eru fram í þingsályktunartillögu hv. þingmanns.

Frelsissvipting er alvarleg lífsreynsla í sjálfu sér og við þurfum að gefa hugsjónum okkar vængi um að betra einstaklinginn og bæta mannfélagið. Það gerum við ekki bara með því að tala. Það gerist eingöngu með því að við sýnum það í verkum okkar. Það höfum við ekki enn gert í málefnum fanga.