151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

sóttvarnarráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19 - forgangsröðun og skipulag, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að freista þess að svara eins mörgum af spurningum hv. þingmanns og hægt er. Ég þakka honum fyrir greinargóðar spurningar. Í fyrsta lagi langar mig að nefna að hingað til höfum við engar vísbendingar um að þau bóluefni sem eru í þróun valdi alvarlegum aukaverkunum, en samkvæmt fréttum frá framleiðendum hafa 10–15% fengið væg inflúensueinkenni tveimur til þremur dögum eftir bólusetningu. Það er talið innan ásættanlegra marka þegar um er að ræða sjúkdóm sem haft getur banvænar afleiðingar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um framkvæmd bólusetningarinnar. Hugmyndin er sú að heilsugæslan sjái um þessa framkvæmd og undirbúningur þeirrar framkvæmdar er kominn á góðan skrið. Gert er ráð fyrir því að þetta sé framkvæmt í nærumhverfi, eins og hv. þingmaður nefnir. Við erum þá í raun að tala um hér á höfuðborgarsvæðinu, að hægt væri að láta bólusetningu fara fram í stóru, aðgengilegu rými þar sem bílastæði eru næg o.s.frv. og þar sem hægt er að tryggja mjög hraða framkvæmd. Framkvæmd bólusetningarinnar sjálfrar á því aldrei að vera flöskuháls í framvindunni eða því hversu hratt þetta gengur yfir, heldur frekar þá hversu hratt efnin koma til landsins.

Ég veit að forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið í sambandi við borgarstjóra um framkvæmd og útfærslu á þessum verkefnum. Ég geri ráð fyrir því að þetta geti hafist strax í byrjun ársins og á fyrstu vikum nýs árs, en á hversu miklum hraða get ég ekki sagt fyrir um. En miðað við það hvernig þetta lítur allt saman út getum við gert ráð fyrir því að markmiði um bólusetningar verði náð u.þ.b. við lok fyrsta ársfjórðungs ársins 2021. Og já, við gerum ráð fyrir að bólusetningin sé gjaldfrjáls.