138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. formann fjárlaganefndar, Guðbjart Hannesson, áðan reyna að réttlæta þá niðurstöðu sem stjórnarmeirihlutinn hefur nú fengið í Icesave-málinu. Með leyfi frú forseta sagði hv. þingmaður þann 15. nóvember í kvöldfréttum þegar hann var spurður um breytingarnar:

„Ja, alla vega að mínu áliti [eru] þessar breytingar [...] ásættanlegar og [eru] sumar hverjar betri og aðrar kannski svipaðar eftir þessar breytingar þannig að það [er] óhætt að samþykkja þessa ríkisábyrgð miðað við fyrri afgreiðslu.“

Nú veit ég ekki hvort við hv. þingmaður erum að tala um sama málið. En það sem hefur gerst og munurinn á þeim málum sem við ætlum að ræða inn í nóttina er sú að ríkisábyrgðin mun ekki falla niður árið 2024. Nú sé ég hv. þm. Ögmund Jónasson standa upp og ganga út undir þessum orðum — nei, nú er hann stoppaður, kannski ég haldi þá aðeins áfram.

Í öðru lagi var sett þak á heildargreiðslur. Fallið hefur verið frá því. Í þriðja lagi var lagt til að við uppgjör Landsbankans væri úthlutun eigna hans eftir íslenskum lögum en nú er búið að blanda EFTA-dómstólnum í þá niðurstöðu og fleira mætti nefna í þessum efnum. Hvernig getur hv. þm. Guðbjartur Hannesson fengið það út að niðurstaðan núna sé jafnvel betri en það frumvarp sem við, stór hluti þingheims, samþykktum á Alþingi Íslendinga á sínum tíma? (Gripið fram í: Dómstólaleiðin.) Það er náttúrlega alveg ljóst að hv. þingmaður fer ekki með rétt mál. Ég held að það sé óumdeilt í íslensku samfélagi að niðurstaðan hér er verri og ég vona að hv. þingmaður átti sig á því að þessi niðurstaða er íslenskri þjóð hættuleg. Við köllum eftir því að hann haldi fund í fjárlaganefnd til að fara yfir þau álitaefni sem hafa komið eftir að málið var tekið út úr nefndinni. Annað er ekki íslenskri þjóð (Forseti hringir.) bjóðandi og annað er ekki þinginu sæmandi.