138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem mig langar að minnast á er það dæmalausa bréf sem hv. þm. Ólöf Nordal minntist á áðan. Það sem vekur athygli mína varðandi bréfaskriftir forsætisráðherranna beggja, Gordons Browns og hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, er að þau virðast vera á hvort á sinni plánetunni í því hvernig þau túlka og skilja þennan samning. Brown segir alveg klárt og skýrt að það séu lagalegar skuldbindingar sem gilda og að hann sé mjög feginn því að nú sé búið að binda þetta í lög. Eðlilega er hann feginn því því að um þennan samning gilda ensk lög. Hann er örugglega alveg klár á því að látið verði reyna á þennan samning og þá verður það gert í breskum dómstólum þar sem hann er á heimavelli. Það er því full ástæða til að þetta mál verði þegar stöðvað í meðferð þingsins og þess verði krafist að farið verði nákvæmlega yfir það hvernig á að skilja og skýra þennan samning þegar forsætisráðherrar landanna eru hvort á sinni skoðun, hvort á sinni plánetunni í þessu. Þá er ekki hægt að fara með þennan samning í gegn því að það er ekki nóg með að við þingmenn höfum efasemdir heldur virðast ráðherrarnir túlka hann hvort á sinn hátt.

Síðan er það vitanlega áhyggjuefni að nú hefur hæstv. forsætisráðherra sent svarbréf við þessu bréfi breska starfsbróður síns. Og miðað við hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá þessum ráðherrum mun svarbréf koma einhvern tíma í mars frá Gordon Brown. Ég held að það verði full ástæða til að málið verði sett á ís þangað til Brown er búinn að svara því hvort þessi túlkun er rétt sem hann er með eða hvort það er túlkun forsætisráðherra sem er rétt því að það getur ekki gengið að við munum samþykkja þennan nauðungarsamning sem er kominn til vegna kúgunar Evrópusambandsins á okkur, kúgunar sem við eigum ekki skilið, að farið sé með hann í gegn með þeim hætti sem virðist eiga að gera.