140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi áðan að hann mundi hrósa ríkisstjórninni ef hann yrði einhvern tíma ánægður með hana. Ég er ekkert að biðja hann um það, ég ætlast ekki til þess að hann sé ánægður með ríkisstjórnina. Ég ætlast samt til þess að hv. þingmaður, fjárlaganefndarmaður, Illugi Gunnarsson, nái þó að klóra sig í gegnum heila ræðu um fjárlagafrumvarpið án þess að einblína á allt það svarta og neikvæða sem hann getur nokkurs staðar grafið upp. (Gripið fram í.) Ég ætlast til þess af hv. þingmanni og er ekki að krefja hann um hrós eða hól um stjórnvöld.

Ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi hafa þó á þessu tímabili náð að klóra sig fram úr þeim vanda sem þau tókust á við — í kjölfar hvers, hv. þingmaður? Það hafa þau gert meira og minna án þátttöku hv. þingmanns sem hefur verið fjarverandi á þinginu einhverra hluta vegna, í kjölfar hvers sömuleiðis? Við höfum náð þeim árangri sem við höfum þó gert. Við erum ekki að biðja um hrós, við erum ekki að biðja um að okkur sé hælt fyrir það, það er til of mikils mælst, (REÁ: Þið gerið það sjálf.) en við biðjum um að fá sanngjarna umræðu um þau mál sem eru til umræðu.

Við getum nefnt sem dæmi byggingu nýs fangelsis, fyrst hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni. Er það eitthvað kemur upp að þurfi að leysa núna í miðri kreppu? Er það eitthvert mál sem við fengum í fangið síðasta vetur eða í vor eða haust? Heldur betur ekki, það er áratugagamalt mál sem dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins gátu ekki klárað ár eftir ár og áratug eftir áratug (ÁI: Rétt.) í öllu því góðæri sem þeir þóttust hafa skapað hér, með alla þá peninga sem flæddu um götur og stræti. Nei, því var ekki sinnt.

Við erum þó að landa því og ég vonast til þess að hv. þingmaður muni greiða atkvæði með þeirri tillögu sem borin verður upp til atkvæða á þinginu á morgun um að það mál verði þá leyst (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll.