146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisþingsályktunartillögu, sem er jákvætt skref í þeim leiðangri sem við erum neydd til þess að halda í. Kannski kem ég inn á einstaka þætti þingsályktunartillögunnar og ræði þá.

Mig langar samt að nota tækifærið til þess að koma inn á það sem vantar í umræðuna og baráttuna í loftslagsmálum. Ég átta mig á því að þeir hlutir eiga ekki endilega heima hér inni, en af því að í málaskrá ríkisstjórnarinnar og umhverfisráðherra er ekkert rætt um að leggja slíkt fram tel ég nauðsynlegt að við förum aðeins út í það og líka vegna þess að bíllinn sem fyrirbæri er nokkuð „sentral“ í þeirri umræðu sem hér er undir. Þá tel ég líka skipta máli að koma inn á þessa þætti, sem ég ætla að gera.

Bíllinn er ein af afdrifaríkustu uppfinningum 20. aldarinnar. Hluti af vandamálinu varðandi bílinn er að sjálfsögðu hvernig hann er drifinn áfram, þ.e. að hann hefur verið drifinn áfram af jarðefnaeldsneyti. Það er nauðsynlegt að bregðast við því með því að skipta yfir í vistvæna orkugjafa. Hins vegar er bíllinn sem fyrirbrigði í sjálfu sér afdrifaríkur alveg óháð því hvernig hann er knúinn. Þar er ég að tala fyrst og fremst um hreyfanleika hans. Það er hreyfanleiki bílsins sem hefur gert það að verkum að borgirnar okkar og þéttbýlið hefur þróast frá hugmyndinni um það sem við getum kallað evrópska líkanið sem var blönduð, þétt, lágreist byggð, sem var byggð í kringum manninn, gangandi, þar sem fólk bjó á efri hæðum og vann á neðri hæðum og sótti svo þjónustu í göngufæri eða með almenningssamgöngum í næsta nágrenni, yfir í það að við færðum okkur og fórum að byggja eftir hinu ameríska líkani bílaborgarinnar sem byggir á allt öðrum prinsippum, nefnilega flokkun og aðgreiningu.

Hvað á ég við með því? Hreyfanleiki bílsins gerir okkur kleift að búa víðs fjarri vinnu, sækja afþreyingu á þriðja staðinn og versla á fjórða staðnum. Með öðrum orðum höfum við teygt á öllu því byggðaumhverfi langt umfram það sem getur nokkurn tímann orðið sjálfbært.

Eins göfugt og það er að skipta yfir í vistvænna eldsneyti án þess að gera nokkuð annað þá gerum við ekki neitt annað með því en að taka á sjúkdómseinkennunum en ráðast ekki gegn sjúkdómnum sjálfum. Þessari þingsályktunartillögu þarf að fylgja aðgerð á öðrum sviðum sem er miklu víðtækari og tekur á öllum innviðum og hinu byggða umhverfi.

Almennt er álitið í dag að um 30%, 40% af allri kolefnislosun sé vegna mannvirkjagerðar. Flestir sérfræðingar eru sammála um að við náum mestum árangri með því að minnka óþarfauppbyggingu. Við þurfum ekki aðeins að byggja smærra og hagkvæmar, við þurfum líka að byggja og búa nær hvert öðru, vegna þess að stytting vegalengda hefur gríðarlega mikið að segja.

Ég teldi að þingsályktunartillögunni þyrftu að fylgja miklu stærri og framsæknari markmið um að gera byggðaumhverfið sjálfbærara. Sem dæmi um að menn eru farnir að átta sig á því, ég held að ég hafi lesið það einhvers staðar, er að 50% af þeim markmiðum sem Reykjavíkurborg ætlar að ná í loftslagsmálum sínum eru beinlínis vegna þéttingar byggðarinnar.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að taka þetta upp á ríkisstjórnarfundum og hvet hæstv. umhverfisráðherra til þess að koma fram með tillögu og aðgerðir eða kalla saman hóp sem hvetur okkur til þess að taka á málunum þar sem þörfin er mest. Það verður ekki bara allt í lagi ef bílarnir verða knúnir áfram af einhverju öðru og við höldum áfram að teygja á byggðinni og byggja samgöngumannvirki langt umfram það sem þörf er á. Það kallar bara á annars konar vandamál. Hér eru notaðar tugþúsundir tonna af stáli að óþörfu.

Orkusóun er svo annað. Hér höfum við byggt byggingar í marga áratugi með beinlínis röngum byggingaraðferðum. Afleiðingu þess þekkjum við. Við þekkjum mygluumræðuna. Hún á rót í því að við höfum byggt á vitlausan hátt. Við höfum verið að byggja steinsteyptan vegg of lítið einangraðan að innan, sem krefst þess svo að fólk sem býr í húsunum verður að umgangast það á tiltekinn hátt til þess að koma í veg fyrir vandamál. Orkusóun í íbúðum er alveg gríðarlega mikil.

Þetta snýst ekki bara um orkuskipti, þetta snýst líka um orkusóun og að minnka hana. Töfraorðin eru í rauninni bara þrjú: Það er að byggja betra, byggja minna og nota minna.

Í þingsályktunartillögunni er talað um almenningssamgöngur. Það er rétt og gott sem þar kemur fram um nauðsyn og ávinning þeirra, en það er hins vegar ekki talað um hvað það er sem veldur því að almenningssamgöngur geta orðið fýsilegur kostur. Það þekkja það allir, og það eru í rauninni góðu fréttirnar að þetta eru vandamál sem allar borgir í kringum okkur glíma við, þannig að það eru svo margir staðir og margir sem við getum lært af. Töfraorðið er byggð sem er gerð þannig að hún er með góðu gönguhæfi, hún er þétt; hún unir góðum almenningssamgöngum. En byggð sem er að þróast, eins og höfuðborgarsvæðið, þar sem þéttni og fjöldi íbúða á hvern hektara er alltaf að verða minni og minni, leiðir bara til þess að almenningssamgöngur verða alltaf hálfgerð tálsýn, kostnaðarsamar, tafsamar og óaðgengilegar. Það er engin hvatning í því að hætta að nota einkabílinn.

Við gerum þetta ekki á einu bretti. Við getum ekki reist einhverjar hindranir og við getum ekki komið í veg fyrir að fólk noti einkabílinn. Í sumum tilfellum er það beinlínis nauðsynlegt. En við eigum að fara að byggja upp þannig að fólk vilji nota hann vegna þess að það sé betri kostur. Það er alveg ótrúlega margt merkilegt sem gerst hefur í þessum málum á síðustu árum. En við erum enn aftarlega á merinni vegna þess að við ætlum að aðlaga okkur að þeim ósjálfbæru aðstæðum sem við höfum komið okkur upp og reyna svo aðeins að slá á sjúkdómseinkennin. En við eigum að ráðast að rót vandans.