146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra vísaði í fjármálaáætlun 2018–2021. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann ætti von á að framlög yrðu hækkuð. Hæstv. ráðherra kemur kannski inn á það í síðara svari sínu. Þótt ég geti að einhverju leyti tekið undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem talaði á undan mér held ég einfaldlega að ekki verði hjá því komist að opna augun fyrir því að það vantar umtalsverða fjármuni í skólakerfið og þar með talið í háskólana. Það hefur löngum verið talað á þeim nótum. Við getum sett þær stefnur sem við viljum og sest yfir það og skoðað, sem er allt hið besta mál og rétt að gera, en það vantar einfaldlega meiri fjármuni þarna inn. (Forseti hringir.) Til að afla þeirra fjármuna þarf fólk að vera tilbúið til að gera það, hvort sem náð er í þá með auknum tekjum eða með því að hækka skatta eða hvað það er, en fjármunirnir verða að vera til.