151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og fyrir koma loksins með þetta mál inn á þingið, það er stórt skref að stofna hálendisþjóðgarð. Vegna þess að hæstv. ráðherra sagði í síðasta andsvari að náttúran á hálendinu væri ómetanleg, og við getum sannarlega tekið undir það, þá er dálítið áberandi hversu mikið er talað um markaðstækifæri ferðaþjónustunnar og efnahagsleg áhrif af þjóðgarði í greinargerðinni. Það býður upp á þann möguleika að einhver önnur efnahagsleg áhrif geti trompað þessa ómetanlegu náttúru, eins og við þekkjum t.d. með svæðið sem liggur núna undir Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar. Hér er talað um jaðarsvæði þjóðgarðs en það var einmitt beðið eftir Kárahnjúkavirkjun með að draga jaðarinn á Vatnajökulsþjóðgarði norðaustan til vegna þess að forsendur efnahags virkjunarinnar voru í fyrsta sæti og þjóðgarðsins númer tvö. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja ráðherrann vegna þess að hugmyndin um jaðarsvæði verður dálítið skrýtin þegar jaðarsvæðunum (Forseti hringir.) er dreift eins og brauðmolum yfir allt svæðið. Þá erum við farin að tala miklu frekar um gatasigti (Forseti hringir.) þar sem götin eru iðnaðarsvæði fyrir virkjanir í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Býður þetta ekki hættunni heim?

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)