151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil byrja á að leiðrétta hann varðandi það að ég hafi slegið úr og í í málflutningi mínum. Ég hef verið mjög skýr í málflutningi mínum. Það lýtur að því að við eigum að sinna því vel sem við höfum þegar friðlýst. Það er víða pottur brotinn í þeim efnum. Það kostar að sjálfsögðu fjármuni og þeir eru af skornum skammti, eins og ég fór yfir og hv. þingmaður tók undir það. Þannig að ég hef ekkert slegið úr og í í þessu máli. Ég er fylgjandi þjóðgörðum en ég sé ekki tilganginn með því að stofna enn einn þjóðgarðinn.

Hv. þingmaður talaði um að koma skikki á hlutina. Er hálendið í einhverjum ólestri? Ég veit ekki til þess. Ég held að það sé bara í ágætum málum og í fullkominni sátt eins og það er núna. Þeir sem ferðast um hálendið njóta þess. Þetta eru víðerni sem eru mjög sérstök og áhrifamikil. Ég get ekki séð að eitthvað sé í ólestri í þeim efnum. Bændur eru þar að græða upp landið í samstarfi við Landgræðsluna og vinna þar mikið sjálfboðastarf. Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi hv. þingmanns. Ég tel að við höfum nóg með það sem við höfum nú þegar og að við eigum að sinna því mun betur en við höfum gert og ná betra samstarfi og samráði við heimamenn en að koma hér með mál sem er umdeilt og ekki hefur verið nægilegt samráð haft um. Við sjáum það alveg, það er ekki hægt að neita því. Þetta er minn málflutningur, hv. þingmaður. Ég tel þetta bara einfaldlega ekki tímabært. Það er niðurstaða mín og ég mun ekki hverfa frá henni.