151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Bergþór Ólason væri að höggva aftur í sama knérunn, að tala af afar takmarkaðri virðingu um það nefndarstarf sem við tókum þó þátt í saman og um þá fundi sem haldnir voru með hagaðilum, endurteknir og margir fundir með sveitarfélögunum, með félagasamtökum, með bændum og almenningi sem áhuga hafði á þessum málum. Ég fullyrði sem nefndarmaður í þessari nefnd að það er einfaldlega rangt að ekki hafi verið hlustað á þau sjónarmið sem þar komu fram. Það er einfaldlega rangt að nefndin hafi ekki gert mikið með þau. Þess sér mjög rækilega stað í skýrslu og skilagrein nefndarinnar sem ég ætla að vona að hv. þingmaður hafi lesið þó að hann hafi ekki viljað standa með okkur að álitinu á endanum. Hann boðaði það reyndar ekki fyrr en á síðasta fundi nefndarinnar að þessir fundir hefðu ekki þjónað tilgangi og það hefði ekki verið gott samráð sem þar fór fram. Meira að segja hefur það haldið áfram, samanber það sem umhverfisráðherra upplýsti hér um í dag. Hann notaði tímann í framhaldinu, þegar fallið var frá því að leggja málið fram síðastliðið vor í miðju Covid, og náði betri sátt við sveitarfélögin um frágang á afar veigamiklu atriði sem varðar skipulagsþáttinn. Það er ekki hægt að tala svona um þetta, hv. þingmaður, þó að menn séu í pólitík. Það hryggir mig að heyra formann fastanefndarinnar sem á að fá þetta mál til umfjöllunar nálgast það með þessu hugarfari.