151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

(Forseti (BN): Þá dettur forseti úr mynd. Gjörðu svo vel.)

Á ég að vera á hnjánum? [Hlátur í þingsal.]

Hæstv. forseti. Ég get svo sem verið á hnjánum svo að forseti sjáist betur, (Gripið fram í.) en þarna er hann.

Við ræðum hérna frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð og það hefur verið fróðlegt að hlusta á ræður þingmanna í dag og ýmislegt hefur komið fram. Ég er sjálfsagt í þessum grenjandi minni hluta sem hv. þingmaður talaði um á undan mér. Þó að ég hafi ekki grenjað hátt í nokkur ár þá finnst mér það allt í lagi þó að ég sé í þeim grenjandi minni hluta. Ég er ekki á móti náttúruvernd eða hálendisþjóðgarðshugmyndinni í sjálfu sér, en eftir að hafa kynnt mér málið betur finnst mér ýmis atriði þurfa frekari athugunar við. Það er mjög athyglisvert að tveir stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, skuli vera með þetta mikla fyrirvara í þessu máli og að þeim fyrirvörum hafi ekki verið mætt á fyrri stigum áður en mælt var fyrir málinu þannig að ríkisstjórnin gæti komið bara algerlega fokheld með þetta mál fram í þinginu. En svona lítur málið út og þannig verður unnið í því.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt innblásna ræðu hér áðan og talaði um að hann hefði labbað yfir hálendið, þvert yfir landið, og talaði um helgidóma á hálendinu. Ég get alveg tekið undir það að margt er rosalega fallegt á hálendinu en þessa helgidóma upplifði hv. þingmaður þó áður en hálendisþjóðgarður varð að veruleika. Og hvernig verður það þá þegar og ef þetta verður gert að hálendisþjóðgarði, verður helgidómurinn þá tvöfaldur? Hálendið hefur verið þarna í nokkur þúsund ár og helgidómar þess eru ekki í bráðri hættu. Mér finnst menn fara svolítið offari í því að tala um að það verði að klára þetta mál, annars sé voðinn vís. Ég myndi vilja klára þetta mál með það að sjónarmiði að allir þeir kostir sem eru til taks í dag – mikið er talað um sjálfbærni — séu þá frágengnir og hef ég einmitt verið að lesa umsagnir um frumvarpið í dag, því að ég hef ekki kynnt mér þetta mál á dýptina, enda er ég ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ég er samt sem áður náttúruverndarsinni og náttúruunnandi í brjósti mínu þó að ég sé ekki yfirlýstur hvað það varðar.

Mig langar aðeins að minnast líka á það að hér hefur verið talað um að tekist hafi vel til í þjóðgörðum eins og á Snæfellsnesi og Hornströndum og það er örugglega að mörgu leyti rétt. En samt sem áður er mófugl á þeim svæðum varla til lengur vegna þess að refur og minkur hefur náð að fjölga sér það mikið að hann hefur stráfellt mófuglinn og er kominn niður í byggðir þannig að bændur eru í vandræðum með þennan varg. Það er eitthvað sem ég hef spurt umhverfisráðherra að, eins og með refinn, og þá hef ég fengið þau svör að þetta sé vegna þess að refurinn hafi numið hér land á undan manninum og eigi að fá að vera í friði einhvers staðar. Ég kaupi þá skýringu ekki alveg.

Mér og fleirum er mjög umhugað um það að við getum nýtt raforkukosti áfram. Það hlýtur að vera þannig í framtíðinni að við þurfum á aukinni raforku að halda. Það segir sig sjálft. Ef við ætlum að byggja upp og fjölga íbúum landsins og atvinnutækifærum þá þurfum við raforku og satt best að segja er ekkert allt of mikil umframraforka til í landinu og reynt hefur mikið á raflagnir og -línur um landið. Það kom berlega í ljós á síðasta vetri þegar hið vonda veður gekk yfir landið og margir hlutar landsins voru rafmagnslausir vegna þess. Þá vöknuðu menn upp við þann vonda draum að afhendingaröryggi raforku var alls ekki nógu gott og hefur sá sem hér stendur og margir fleiri bent á það til margra ára.

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að vitna í umsögn frá Landsneti, með leyfi forseta:

„Landsnet hefur á fyrri stigum málsins gert ýmsar athugasemdir við textadrög þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og hefur að hluta til verið tekið tillit til þeirra athugasemda í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsdraganna varðandi núverandi raforkuflutningsvirki. Hins vegar hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga Landsnets varðandi framtíðaruppbyggingu flutningskerfis heldur er í 4. mgr. 11. gr. draganna lagt til að nýjar háspennulínur í lofti verði ekki leyfðar innan þjóðgarðs á miðhálendinu. Landsnet telur að tillagan hafi veruleg áhrif á möguleika til framtíðaruppbyggingar flutningskerfis raforku.“

Þess misskilnings hefur nefnilega gætt svolítið mikið að hægt sé að leggja þetta allt saman í jarðstreng. Fólk, aðallega frá Landsneti, hefur komið alveg skýrt fram með það að ekki er svo einfalt að gera vegna þess að jarðstrengir bera ekki þá háspennu sem er lögð í burðarkerfum raforku nema vissar vegalengdir. Það þarf að taka upp úr jörðinni og flytja eftir loftlínum á milli. Það er bara staðreynd. Þessu er ekki hægt að breyta með einhverjum tækniframförum. Þetta er bara eðlislægt. Þetta er bara svona. Svo kemur hér heljarmikill texti, en ég ætla aðeins að drepa niður í síðari hluta umsagnarinnar, með leyfi forseta:

„Sú tillaga frumvarpsins að lögbinda bann við nýjum loftlínum innan hálendisþjóðgarðs gengur mun lengra en þingsályktun Alþingis um framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins gerir ráð fyrir.“

Þarna eru þeir hjá Landsneti að vísa í þingsályktun um framtíðaruppbyggingu raforkuflutningskerfisins. Það stangast á við ýmislegt sem er í þessu frumvarpi um hálendisþjóðgarð. Ég held áfram að lesa úr umsögninni:

„Eins og fram kemur í fyrri umsögnum Landsnets hvílir á fyrirtækinu sú lagaskylda að gefa árlega út kerfisáætlun sem samþykkt er af Orkustofnun, að undangengnu víðtæku umsagnarferli. Áætlunin hefur m.a. tiltekna stöðu gagnvart skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Áætlunin felur annars vegar í sér langtímaáætlun varðandi þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum og hins vegar framkvæmdaáætlun sem sýnir ákvarðanir um fjárfestingar í flutningskerfinu á næstu þremur árum. Mikilvægt er að tekið sé tillit til þessarar áætlunargerðar og skapað svigrúm til styrkinga á flutningskerfinu í samræmi við langtímastefnumörkun hennar. Allar sviðsmyndir kerfisáætlunar varðandi það markmið að tryggja sem jafnast aðgengi landsmanna óháð búsetu að hreinni endurnýjanlegri orku fela í sér að framtíðarmannvirki flutningskerfisins munu að einhverju leyti liggja innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs. Ábyrg nýting orkumannvirkja og aðstæður fela í sér að hægt sé að koma raforku á milli landsvæða.“ — Ábyrg nýting orkumannvirkja. — „Ljóst má vera að framtíðaruppbygging flutningskerfisins mun að einhverju leyti ná til svæða sem eru innan marka þjóðgarðs. Fyrir liggur að miklar tæknilegar takmarkanir eru á lagningu jarðstrengja í þeim hlutum flutningskerfisins.“ — Eins og ég kom inn á áðan með jarðstrengina. — „Með vísan til þessa varar Landsnet eindregið við því að í frumvarpinu sé lagt til bann við loftlínum innan marka þjóðgarðs. Með því er mögulega verið að rýra möguleika til að auka afhendingaröryggi raforkunotenda til framtíðar og hindra skynsamlega nýtingu hreinna orkuauðlinda.“

Svo mörg voru þau orð. Varla viljum við hindra og rýra möguleika til að auka afhendingaröryggi raforku til framtíðar. Það getur varla verið að við viljum það, landsmenn.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíminn líður hratt og ég var kominn með nokkrar umsagnir sem mig langaði til að vitna í. Mig langar að koma inn á aðra umsögn sem kemur frá sveitarstjórn Bláskógabyggðar, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar krefst þess að áform um stofnun þjóðgarðs fari í umhverfismat. Mat verði lagt á umhverfisþætti, þar á meðal samfélag, umhverfi, menningarminjar, kostnaðaráhrif o.fl. Nauðsynlegt er að meta þessa þætti þar sem hvorki hefur farið fram samráð né greining á kostum þess og göllum hvort yfir höfuð skuli stofna þjóðgarð eða ekki.

Bláskógabyggð hefur á fyrri stigum málsins skilað inn athugasemdum við allar tillögur þverpólitísku nefndarinnar varðandi einstaka áhersluþætti og frumvarpsdrög. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ítrekar fyrri athugasemdir sínar og þá afstöðu að leggjast alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu líkt og frumvarpsdrögin gera ráð fyrir.“

Þetta er svolítið öðruvísi en kom hérna fram í ræðu á undan.

„Hér verður stiklað á stóru um helstu athugasemdir sem Bláskógabyggð hefur sett fram: Inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga er of mikið, þar sem stjórnunar- og verndaráætlanir gilda framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Aðkoma sveitarfélaga að stjórnun þeirra svæða sem liggja innan þeirra marka verður ekki nægjanleg miðað við áform í frumvarpsdrögunum. Bláskógabyggð ítrekar fyrri efasemdir sínar um að fyrirheit um fjármagn og væntanlegar tekjur standist og bendir enn og aftur á þann tvískinnung sem felst í því annars vegar að byggja á sjónarmiðum um friðun og verndun, umhverfis- og loftslagsmál, og hins vegar sjónarmiðum um þjóðhagslega hagkvæmni sem sé fólgin í því að skapa sterkt vörumerki sem laði að fjölda fólks. Þá er bent á að aðgengi almennings að landsvæðum innan þjóðgarðs verður takmarkað með gjaldtöku og aukinni stýringu. Þá er viðbúið að við það að svæðið verði á forræði ríkisstofnunar muni draga úr framlagi sjálfboðaliða sem til þessa hafa lagt vinnuframlag og fjármuni til gróðurverndar og uppgræðslu, merkinga og þjónustu við þá sem fara um svæðið. Sveitarstjórn gerir einnig athugasemd við víðtækar heimildir ráðherra til setningar reglugerða er varða mörk, friðlýsingu o.fl.“ (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ræðutíma mínum er lokið og óska ég eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá vegna þess að ég var ekki búinn með það sem ég ætlaði að tala um.