Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar Eystrasaltsríkin fengu frelsi þá ákváðu þau að fara bæði inn í Evrópusambandið og NATO, hvort tveggja tryggði tvær hliðar á sama peningnum, friðarpeningnum, viðskiptafrelsi og varnir og öryggi. Í sögulegu samhengi, og við þekkjum bæði söguna mjög vel enda hv. þingmaður mjög vel inni í öllu sem viðkemur varnar- og öryggismálum, þá var Svíþjóð lengi vel hlutlaust og telur sig enn vera hlutlaust ríki, gat ekki farið í NATO en ákvað að fara í ESB, m.a. út af viðskiptahagsmunum en líka út af því að það væri meira öryggi fólgið í því að vera í viðskiptabandalagi við önnur ríki Evrópusambandsins. Það sama gilti um Finnland. Finnland var í ljósi sögunnar í mjög erfiðri stöðu til að fara á sínum tíma inn í NATO, en ákvað að fara í ESB af því að það væri þó meira öryggi fólgið í því að vera innan ESB heldur en utan. Það gátu þeir gert án þess að verða fyrir áreiti og yfirgangi Rússa. Það er fyrst núna sem þessi tvö ríki geta í ljósi Úkraínustríðsins farið inn í NATO. Ég vil spyrja á móti hæstv. þingmann — háttvirtan, en verður eflaust hæstv. einhvern daginn: Hver er þróunin í Þýskalandi? Hvert er matið og hvað er að gerast í Þýskalandi? Þeir gera þetta ekki bara á grunni NATO heldur líka á grunni Evrópusambandsins og eru að auka framlög sín á grunni þess að gera Evrópu sterkari. Hver var tilgangurinn með þjóðaratkvæðagreiðslunni í Danmörku, fyrir Dani að verða hluti af þeirri grein Evrópusambandsins eða samningsins innan upphaflega Evrópubandalagsins og síðan Evrópusambandsins, varðandi varnar- og öryggismál? Það var af því að þeir telja hag sínum betur borgið með því að verða alltaf við borðið þegar rætt er um varnar- og öryggismál. Ég heyri það líka að Norðmenn eru uggandi yfir því að Norðurlandaþjóðirnar sem eru þá komnar inn í bæði NATO og Evrópusambandið, þ.e. Finnland, Svíþjóð og Danmörk, (Forseti hringir.) muni í rauninni flytja mál Norðmanna og Íslendinga við Evrópusambandsborðið þegar kemur að varnar- og öryggismálum (Forseti hringir.) af því að þau mál eru rædd og þau verða rædd. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd.