135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er mikill ys og þys út af litlu tilefni. Forseti lagði fram hugmyndir sínar strax í sumar um breytingar á þinghaldi og þingsköpum. (KolH: Þetta er trúnaðarmál.) Hann lagði fram skrifaða texta um málið í ágúst sl. Menn hafa því haft nógan tíma til að vinna í þessu máli. Þessar tillögur eru til þess að bæta aðstöðu þingmanna til að sinna starfi sínu betur en þeir telja sig hafa gert hingað til til þess að bæta ímynd Alþingis gagnvart almenningi, sem er með þeim hætti að ekki er úr háum söðli að detta, m.a. vegna þess að sumir þingmenn hafa e.t.v. nýtt ræðustólinn meira en góðu hófi gegnir. Ekki hefur það orðið mönnum til framdráttar því að síðasta málþóf sem hér fór fram, virðulegi forseti, var um Ríkisútvarpið ohf. og þá gafst stjórnarandstaðan upp í því málþófi. Hún gafst upp á þriðja degi. Það hafði engan árangur í för með sér fyrir þá sem beittu því vopni. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætti að hafa það í huga. (KolH: En í vatnalögunum?)

Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála ummælum sem hér hafa fallið um óvönduð vinnubrögð í þessu máli og aðdróttanir í garð forseta. Þær eru ósæmilegar. Það sem hefur komið mér mest á óvart eru óvönduð vinnubrögð hv. forustumanna Vinstri grænna sem hafa talið sig geta og vilja stjórna störfum þingsins, koma í veg fyrir að aðrir sem sammála voru um breytingar næðu saman um þær. Það er ákaflega sérstakt að fulltrúar 9 þingmanna vilji ráða því hvort fulltrúar 54 þingmanna komi fram með tillögur sem þeir telja til framfara fyrir þingið.