145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp hefur verið í vinnslu í mörg ár, eins og komið hefur fram. Ég efast nú um að allsherjar- og menntamálanefnd ætli að fjalla um málið í mörg ár, en það krefst hins vegar þess að menn fari mjög rækilega yfir ýmis atriði sem til álita koma í tengslum við málið. Það er svo margslungið. Menn hafa á því miklar skoðanir. Við eigum líka eftir að finna það í þessari umræðu, sem betur fer, að svo er. Ég held og ég veit að nefndin mun fara yfir þessi atriði öll sömul. En ég held að menn ættu að huga að því þegar litið er til þessa hluta varðandi innheimtuna að stíga ekki allt of stór skref í einu og átta sig frekar á því hvernig þetta gengur. Við höfum alltaf þann möguleika að gera þessa tilteknu breytingu. Búið er fara nokkuð rækilega yfir það og töluvert mikið er til af gögnum sem styðja það að hægt sé að gera þetta. En ég held hins vegar að svona breyting verði að vera gerð með þeim hætti að maður líti yfir allt kerfið í heild sinni, þá ekki bara fullnustukerfið heldur líka önnur atriði sem gætu hugsanlega orðið þyngra fordæmi fyrir því að menn fari inn í laun manna. Það verður að hafa það í huga þegar svona ákvarðanir eru teknar.