149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:22]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið og að gefa mér tækifæri til að koma aðeins inn á þetta. Staðreyndin er sú að byggðir landsins, og ég held að hv. þingmaður sé sammála mér um það, hafa setið svolítið eftir. Ég get nefnt Austfirðina og Vestfirðina og ef við tökum Vestfirðina sem dæmi þá biðu Vestfirðingar spenntir eftir því að fá símapeningana á sínum tíma, þeir áttu að bjarga samgöngum á Vestfjörðum. En það var ekki hægt að nota þá því að það var svo mikil þensla í samfélaginu og þar með mátti ekki bæta í verkefni á vegum ríkisins. Síðan loksins minnkaði þenslan og það varð hrun, en þá var ekki hægt að gera það af því að það voru ekki til neinir peningar.

Í dag erum við á toppi hagsveiflunnar og þess vegna hlýt ég að spyrja: Ef ekki núna, hvenær þá? Það er alveg ljóst að reynslan sýnir að við bregðumst ekki við þegar og ef — ég er ekki að boða hrun — næsta hrun verður. Þess vegna hlýt ég að kalla eftir því, og geri það án þess að hika, að við horfum meira til byggðanna.

Hv. þingmaður spyr hvort ég sjái eftir þessum 500 milljónum í samgöngumál, sem fara t.d. í heilbrigðismál, tækjakaup á landsbyggðinni og hjúkrunarheimili. Já, ég sé svolítið eftir þeim og í breytingartillögum okkar, sem eru líka fullfjármagnaðar, er gert betur.

Svo verð ég líka að segja, fyrst hv. þingmaður talar um þessar 500 milljónir: Á sama tíma eru heilbrigðisstofnanir úti á landi að biðja um 400 milljónir til að standa undir grunnþjónustu. Ég endurtek: Grunnþjónustu. Ég hefði viljað sjá þær fara þangað. Ég held að við hefðum alla vega getað gert betur.