151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel t.d. að búið sé að mörgu leyti vel um hefðbundnu nytjarnar í frumvarpinu. Þó þarf að fara vel yfir það, m.a. í samspili við aðra löggjöf eða reglusetningu, hvort einhver víxlverkun gæti orðið. Það er eitt af því sem ég álít að sé ágætlega um búið. Þar er ég að túlka fyrirvarana á minn hátt. Það kann að vera að einhverjum öðrum í þingflokknum finnist ekki vel um þær búið. Það er samt eitt af áhersluatriðunum sem virkilega þarf að horfa eftir og greina í meðförum nefndarinnar hvort nægjanlega vel sé um búið.

Eins taldi ég á ákveðnum tímapunkti, þegar ég sá þetta frumvarp, að ágætlega væri búið um það að augljóst væri að gert væri ráð fyrir fleiri en einum verndarflokki, og jafnvel mörgum, innan þjóðgarðs. Við nánari aðgæslu var það ekki nægilega skýrt. Síðan þá hefur verið bætt í hvað það varðar. Ég tel að jafnvel þurfi að bæta enn í. Það má segja að þetta sé á öllum stigum. Þar er að ýmsu að hyggja. Þótt ég telji vel búið um ákveðinn þátt, eins og hefðbundnar beitarnytjar, þá er kannski ekki víst að eins vel sé búið um ákveðnar veiðar. Það mun þá náttúrlega koma fram í umsögnum til nefndarinnar ef þannig er, eða akkúrat öfugt.