151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki svarað síðari hluta fyrirspurnar hv. þingmanns í fyrra andsvari. Ég tel hins vegar að það sem komið var inn á varðandi skilgreind viðmið alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, að skipta verndarsvæðum í sjö verndarflokka sem hægt er að nota innan þjóðgarða, sé mjög mikilvægt vegna þess að við þurfum að hafa eitthvert kerfi þegar við skiptum upp viðlíka fjölbreyttu svæði og miðhálendi Íslands. Hvort því verður fylgt eftir er svo kannski annar handleggur. Við skulum vona að það verði gert.

Ég heyri líka á máli hv. þingmanns að hann hefur áhyggjur af raflínum. Það er ágætt að heyra að hann hafi áhyggjur af raflínum og þeirri sjónmengun sem þær muni skapa. Ég held að það þurfi að forðast í lengstu lög innan þjóðgarðs en ég efast um að það sé hægt ef opnað er á virkjunarkosti á jaðarsvæði miðhálendisþjóðgarðsins.

En þegar talað er um orkumálin þá verður að tala líka um orkuþörfina í stað þess að opna alltaf á einhverja virkjunarkosti í einhverri ókominni framtíð með einhverjar óljósar hugmyndir um rafmagns- og orkunotkun og orkuþörf okkar. Hér hefur farið fram vinna við orkustefnu. Tímarnir eru að breytast mjög hratt. Við erum að fara í orkuskipti í samgöngum. Stóriðjan er kannski að deyja út af sjálfu sér. Þá þurfum við líka að skoða það sem er til að mynda að gerast með álverið í Straumsvík. Ætlum við frekar að nota þá orku í orkuskiptin eða hvað? Ég held að þetta séu spennandi tímar en okkar bíða líka miklar áskoranir. (Forseti hringir.) Þá skiptir miklu máli að við stöndum vörð (Forseti hringir.) um umhverfis- og verndarsjónarmiðin sem eiga að vera meginmarkmiðið í þessu frumvarpi en ekki orkunýtingarsjónarmiðin.