151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál snýst í einfaldleika sínum um langtímahugsun andspænis skammtímahugsun. Með þessu frumvarpi erum við að reyna að koma á skipulagi sem ýtir undir langtímahugsun en ekki skammtímahugsun. Af hverju segi ég það? Það er t.d. tengt orkunýtingu. Það eru ekkert svo mörg ár í að vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir eða slíkt verði einfaldlega úreltur kostur hvað hagkvæmni varðar. Þetta segi ég bara með tilliti til þeirrar tækniþróunar sem hefur orðið á undanförnum árum og hvert Moores-lögmálið er að færa okkur, þó að það eigi kannski frekar við örgjörva en orkunýtingu. Þetta virðist þó fara u.þ.b. í sömu átt, þ.e. aðferðir til orkuframleiðslu þróast svo hratt þessa dagana, og munu gera það á næstu árum, að væri miðhálendi Íslands nýtt undir risavaxnar vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir eða slíkt væri það gríðarlega ógáfuleg notkun á þeim ósnortnu víðernum sem þar er að finna, ef við ætlum bara að hugsa um verðmætasköpun eða þess háttar. Ósnortin náttúra er að verða verðmætari en nokkru sinni fyrr.

Hér hafa verið haldnar ræður um að þetta séu ekkert rosalega merkileg markmið og að eitthvað annað muni sjá um þetta, lög um náttúruvernd og þess háttar, öllu sé reddað og hægt að leysa vandamálin, þær áskoranir sem markmiðin snúast um, á einhvern annan hátt. En þetta snýst einmitt um að leysa þessi vandamál. Að hafa miðhálendisþjóðgarð, með tilliti til þeirrar tækniþróunar sem við sjáum fram á á næstu áratugum, með tilliti til þeirra áskorana sem við sjáum varðandi ágang á náttúruperlur, kallar á skipulag. Þetta er hugmynd að slíku skipulagi. Einhverjir segja: Þetta er ekki málið. Það er hægt að gera eitthvað annað. Hvað? Jú, einhverjir aðrir geta reddað þessu á annan hátt. Hvernig? Það er verið að vinna í þeim sellum núna. Það eru aðilar sem eru að reyna að sinna þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna og við erum í þeim aðstæðum að við glímum við vandamál. Það þarf að gera meira. Geta þeir aðilar sem glíma við vaxandi vandamál vegna aukins ferðamannaþunga gert meira? Mögulega. Þýðir það að þörf sé á betri samvinnu og samskiptum á milli mismunandi aðila sem sinna þessum verkefnum? Örugglega. Væri hægt að gera það með einhverju apparati sem hjálpaði til við slík samskipti? Tvímælalaust. Væri hægt að kalla það apparat miðhálendisþjóðgarð? Að sjálfsögðu. Þetta er í rauninni ekkert flóknara en það.

Þegar við glímum við þau rök að hægt sé að gera þetta einhvern veginn öðruvísi leiðir það í rauninni til þeirrar niðurstöðu að gera ekki neitt. Þá sitjum við uppi með þau vandamál sem við erum að reyna að leysa. Vissulega er hægt að klúðra framkvæmd. Það er hægt að segja að lausnin, með öllum þessum stjórnum og rekstrarsvæðum og umdæmisráðum og þess háttar, gæti virkað sé hún gerð rétt en það er líka hægt að klúðra henni af því að við erum mannleg og klúðrum ýmsu. Það er samt ekki verra en að klúðra með því að gera ekki neitt. Með því að vinna okkur í áttina að vandamálunum, með því að takast á við þau, með því að koma til móts við þau lærum við af mistökum og gerum betur. Með því að gera ekki neitt lærum við ekki neitt, okkur heldur áfram að mistakast og við gröfum okkur enn dýpri holu en við erum í.

Í andsvari hér fyrr í kvöld talaði ég um það markmið að stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar. Ferðafélög og útivistarfólk hafa sagt, á mismunandi hátt og úr mismunandi áttum, að þetta sé ekki vandamál. Landverðir og annað útivistarfólk segir að þetta sé vandamál, t.d. af því að mjög viðkvæmar náttúruperlur sem eru ekki í neinni umsjá, þ.e. engin aðstaða er við þær, verða fyrir ágangi þeirra sem kunni ekki að ganga vel um þær, eins og ferðafólksins sem segir að þetta sé ekki vandamál af því að það gangi vel um náttúruna, það kunni að fara með viðkvæma náttúru Íslands, það kunni á þessa viðkvæmu staði sem eru víðs vegar um landið og viti hvar þeir séu. Það hafa verið til hálfgerð vel varðveitt leyndarmál um ákveðna staði, einmitt út af því að þeir eru viðkvæmir, út af sérstöðu þeirra. Þau leyndarmál hafa einfaldlega uppljóstrast með tilkomu þess að auðvelt er að dreifa GPS-hnitum. Kötturinn er úr sekknum, Pandóruboxið hefur verið opnað. Þó að ferðamannaþunginn sé ekki gríðarlega mikill á miðhálendinu ber það ekki það mikinn þunga hvort eð er. Lítill hluti þeirra ferðamanna sem sækja hingað er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Ef þróunin á áfram að vera eins og hún hefur verið og miðað við þær áætlanir sem hafa verið gerðar varðandi t.d. uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, miðað við fjölda farþega og þess háttar, hefði vandamálið einungis vaxið ef kórónuveiran hefði ekki komið til. Mjög margir staðir hafa orðið fyrir ágangi og skemmdum þrátt fyrir landvörslu og þrátt fyrir að reynt hafi verið að byggja upp einhverja aðstöðu. Þetta er vandamál sem við verðum að leysa og við leysum það með skipulagi, við leysum það með betri samvinnu, við leysum það með betri samskiptum og við leysum það með því að horfa til framtíðar með langtímahugsun að leiðarljósi, ekki með skammtímagróða sem gerir það að verkum að náttúruperlur skemmast af því að við gripum ekki nægilega fljótt inn í og hugsuðum ekki nógu vel um umhverfi okkar. Það þarf nefnilega alls ekki mikinn tíma til þess að skemmdir verði á viðkvæmu umhverfi á miðhálendinu.

Svo að ég bindi þetta aðeins saman erum við að rífast aðeins um almannaréttinn. Hann hefur verið og er mjög ríkur hér á Íslandi. Hann hefur heldur ekki verið vandamál af því að við erum einfaldlega fá og í rauninni hefur verið lítil umferð fólks um hálendið. Almannarétturinn hefur því ekki valdið okkur þeim vandræðum sem hann myndi gera með auknum umferðarþunga. Um leið og umferðarþunginn bætist við verðum við að sinna þeim skyldum sem við höfum gagnvart framtíðarkynslóðum, að tryggja að þær njóti sömu umhverfisgæða og við gerum. Við verðum að stíga þau skref og búa til skipulag sem gengur ekki á náttúruna á ósanngjarnan hátt fyrir framtíðina. Á móti erum við með nýtingu í atvinnuskyni. Þar vara ég við skammtímagróðanum. Hugsum aðeins lengra, hugsum 50 ár fram í tímann og miðum við aðstæðurnar sem þá eru mögulegar miðað við þá þróun að fara í miklar virkjunarframkvæmdir eða það að halda ósnortinni náttúru. Ég sé ekki neina sviðsmynd þar sem mikil fjölgun virkjana á þessu svæði myndi skila okkur meiri hagnaði til eilífðar heldur en að leyfa ósnortinni náttúru að vera. Þau verðmæti munu haldast miklu lengur en virkjun hér og þar.

Við erum að útvega orku til áliðnaðarins, 80% af allri orku sem við framleiðum fer til álfyrirtækjanna. Ég fór í smáútreikninga og setti upp skáldað dæmi. Miðað við meðalverð á raforku í Bretlandi þá myndi þessi orka seljast þar fyrir 360 milljarða væri hún flutt með einhverjum risasæstreng til Bretlands — sem gengur ekkert, þetta var bara sett upp til þess að bera saman tölurnar. Ég reiknaði þetta út árið 2014. Á sama tíma voru að koma skýrslur og niðurstöður um það hversu mikið álfyrirtækin voru að borga fyrir þessi 80% af þeirri orku sem framleidd er á Íslandi og það voru um 60 milljarðar. Við þurfum að útskýra af hverju við erum að glata 300 milljörðum af verðmætasköpun. Við erum í raun að gefa þessum fyrirtækjum 300 milljarða á ári af verðmætasköpun sem við gætum nýtt á annan hátt. Ég myndi segja að illa sé farið með íslenska orku akkúrat eins og er.

Einhverjir tala um að á móti séum við að spara umhverfislega. Ef við værum ekki að framleiða orku fyrir stóriðjuna sem mengar þó minna hérna myndi hún menga annars staðar. Þetta er ákveðin rökvilla því að það er iðnaður annars staðar í heiminum sem er umhverfisvænn og skapar meiri og betri verðmæti. Við gætum þá í staðinn verið að styðja við hann hér á Íslandi, þ.e. ef við myndum skipta á þeim iðnaði og álframleiðslunni. Nákvæmlega sama orka væri notuð ef þessi iðnaður myndi skipta um stað en orkan myndi nýtast til grænni verkefna hér á Íslandi og gera framleiðsluna umhverfisvænni og samkeppnishæfari sem myndi að lokum leiða til betri heims. Heildarkolefnisfótsporið væri í versta falli það sama. Ef eitthvað er gæti það orðið minna í framhaldinu. Ef umhverfisvæni iðnaðurinn yrði samkeppnishæfari myndu nettóáhrifin yfir einhvern tíma, næstu 10, 20, 30 ár, verða jákvæðari en ef við myndum halda álframleiðslunni áfram og stóriðjunni í gangi. Þetta eru því fölsk rök. Það gleymist alltaf að stækka dæmið. Það er ekki nóg að segja bara að fari álframleiðsla héðan fari hún eitthvert annað þar sem hún myndi menga meira og það þýddi aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við verðum líka að mínusa það sem við myndum fá hingað til baka í staðinn. Heildarsumman í heiminum myndi ekki breytast neitt. Þetta eru rök sem eru mjög algeng og einmitt meðal þeirra sem ég hef heyrt að hafa verið neikvæðir gagnvart þessum þjóðgarði.

Ég minni bara á að langtímahugsun er betri en skammtímahugsun. Hvað þetta frumvarp varðar, hvernig sem fer með framkvæmdina, erum við mannleg og getum klúðrað því fram og til baka. En við lærum alla vega af því að stíga skrefin og hrasa, við stöndum upp og höldum áfram og gerum betur í kjölfarið. Ef við gerum ekki neitt lærum við ekki neitt og höldum áfram að sulla í sama vitleysispollinum og við erum að gera núna.