151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla í seinni ræðu minni við 1. umr. um þetta mál að ræða þau atriði sem ég náði ekki að koma inn á tímans vegna í fyrri ræðu minni. Það eru sjónarmið sem tengjast því, eins og hæstv. umhverfisráðherra kom inn á í framsöguræðu sinni, að þetta sé stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar, stærsta framlag allra tíma til náttúruverndar. Mig langar bara að velta því upp hvort umhverfisráðherrann sé svo viss um að þessi markmið geti ekki náðst fram með öðrum hætti en að stofna þennan hálendisþjóðgarð. Það má í raun segja að hann telji slaginn fyrir góðri meðferð hálendisins tapaðan náist þetta mál ekki fram. Mér þætti mjög miður ef það væri útgangspunktur hæstv. umhverfisráðherra. Mig langar til að setja þetta í samhengi við starfsöryggi þeirra sem nýta hálendið með einum eða öðrum hætti. Mig langar til að setja þetta í samhengi við þjóðlendumálið sem fór af stað með lagasetningu 1998 og alla tíð síðan hefur verið barningur milli ríkissjóðs og bænda landið um kring. Hringurinn er fyrst núna að lokast eftir allan þennan tíma með því að Vestfirðirnir eru undir þessi misserin. Ég hef velt því upp hvort ástæðan fyrir því að þetta heiti ekki lengur miðhálendisþjóðgarður heldur hálendisþjóðgarður sé sú að þá muni falla inn í þetta regluverk þau svæði Vestfjarðanna sem ríkið myndi ná að taka til sín frá landeigendum fyrir vestan. Þessi vegferð þjóðlendumála hefur skapað óþarfaátök áratugum saman sem ég er hræddur um að við séum að setja af stað með nýjum formerkjum í þessu máli er snýr að hálendisþjóðgarðinum. Tónninn frá öllum rekstraraðilum sem koma að svæðinu, sveitarfélögunum flestum og bændum, er í þá veruna að augljóst er að það hefur mistekist fullkomlega hjá hæstv. umhverfisráðherra og þeim sem tala fyrir málinu að sannfæra hagaðila um að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur.

Annað atriði þykir mér stangast nokkuð á innbyrðis í þessari umræðu allri. Í einni setningunni er ætlunin að verja svæðið fyrir ágangi en í hinni er ætlunin að fjölga ferðamönnum í formi gesta. Auðvitað má segja að ætlunin sé að byggja upp innviði og þar fram eftir götunum til að tryggja að aukinn fjöldi gesta skapi minni ágang og átroðning á náttúruperlum okkar. En er ekki bara hægt að gera það nú þegar? Er búið að bíða lengur en ástæða var til á ákveðnum svæðum og skapa þar með tjón á þeim til að geta sýnt fram á: Heyrðu, þið sjáið hvað þetta gengur illa og hvað átroðningurinn er mikill. Þetta lögum við með miðhálendisþjóðgarði. Er ekki hægt að ganga til þess verks að laga þessa hluti án þess að stofna þetta mikla bákn utan um það?

Síðan langar mig í lokin, af því að tíminn er að hlaupa frá mér, að koma inn á sérstakan hluta ræðu félaga míns í umhverfis- og samgöngunefnd, Kolbeins Óttarssonar Proppés, þar sem hann talaði um hversu gott samráðið hefði verið, það væri nú þannig með samráð og hann lenti ítrekað í því að haft væri samráð við hann en síðan ekkert hlustað. Ef hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé væri hér í salnum myndi ég segja í gríni að það væri skiljanlegt að ekki væri hlustað á hann. En það er svo undantekningarlítið að þeir sem mættu á þessa fundi, sveitarfélögin og fagaðilarnir, telja að ekkert mark hafi verið tekið á þeim sjónarmiðum sem þar voru sett fram. Það er ekki samráð, það er sýndarsamráð og það er mjög miður að það sé upplifun jafnmargra hagaðila í málinu og raunin er. Nú er tíminn runninn út hjá mér en ég hlakka til að fá málið til meðferðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.