151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stórt mál sem er málefni miðhálendisins, miðjunnar okkar og sumir vilja meina hreyfiaflsins. Við sækjum þangað orkuna sem knýr atvinnulífið og heimilin í þessu landi. Hverjum getur verið sama um þetta svæði? Það er spurning. Vonandi engum. Hér er komið fram frumvarp um hálendisþjóðgarð sem við ræðum. Sitt sýnist hverjum, eðlilega. Okkur er auðvitað ekki sama. Okkur á ekki að standa á sama um þetta svæði, hvar sem við búum.

Ég sat í þverpólitískri nefnd um orkustefnu fyrir landið, nefnd sem byggði á þeim kafla í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem segir að í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma, til að mynda miðað við stefnu stjórnvalda um orkuskipti og hvernig tryggja megi raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Í orkustefnunni, sem gildir til ársins 2050, er leiðarljósið að við horfum til sjálfbærrar orku til framtíðar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ísland er land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðsla er af endurnýjanlegum uppruna. Endurnýjanleg orkuframleiðsla gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Orkan er nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf er mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Landið er leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu, orkuskiptum, orkunýtni og skilvirkri fjölnýtingu orkugjafa. Sátt ríkir um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda enda umhverfisáhrif lágmörkuð.“

Þetta eru háleit markmið sem við vonumst til að geta staðið við eftir 30 ár. Við getum öll skrifað undir þessi markmið. Þess vegna varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég leit þetta frumvarp með að orkustefnan næði ekki yfir hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð og þess gætt að orkustefnan og miðhálendisþjóðgarðshugmyndin töluðu sama tungumálið, þó svo að vissulega eigi ekki að stöðva orkuframleiðslu, hún eigi að halda áfram og orkukaflinn er þar inni líka. Ég var að vonast til að beðið yrði eftir orkustefnunni, að hún yrði lögð yfir þetta og að þetta myndi tala betur saman.

Vissulega er það með einhverjum hætti en þegar við tölum um orkuöryggi allra landsmanna þá verðum við að tryggja að flutningsleiðir raforku séu fullnægjandi, viðhald á þeim og endurnýjun. Það hafa heyrst nokkrar raddir um að þótt talað sé um flutningsleiðir og jarðstrengi og annað þá sé ekki nægilega tryggt að þetta verði öruggt og að orkuöryggi Íslendinga í kringum allt landið verði tryggt með viðeigandi hætti inni í þjóðgarðinum þó svo að það verði vonandi. Nú gengur málið til nefndar og verður vonandi gengið frá því með öruggari hætti. Margir hafa haft áhyggjur af því að ekki sé nægilega gengið frá því að loftlínur sem fyrir eru, fyrirhugaðir jarðstrengir, og viðhald á núverandi flutningskerfi á hálendinu sé í forgangi. Þetta eru atriði sem þarf að tryggja. Framsóknarflokkurinn gerði töluverða fyrirvara við frumvarpið. Í þeim segir m.a. um orkunýtingu:

Við gerð stjórnunar- og verndaráætlana þarf að afmarka orkuvinnslusvæði, svæði í biðflokki í rammaáætlun 3 og flutningsleiðir raforku á miðhálendinu, hvort sem þau verða innan eða utan þjóðgarðs.

Skrifa þarf inn nýjan texta í 23. gr. byggðan á niðurstöðum samtala stjórnarflokkanna um hvernig á að fara með skoðun á orkukostum rammaáætlunar í þjóðgarðsfrumvarpi. M.a. að orkukostir 3. og 4. rammaáætlunar verði teknir til skoðunar án tengingar við þjóðgarðinn og að jákvætt ákvæði komi í 23. gr. þess efnis. Þ.e. að þrátt fyrir að orkukostir séu innan þjóðgarðs, þá eigi að skoða kostina óháð því að þeir væru innan þjóðgarðsmarka.

Skýra þarf samspil afmörkunarsvæða, verndarflokka lands og rammaáætlunar og gæta að öllum þáttum.

Tryggja verður að leggja megi raflínur og eða jarðstrengi innan marka þjóðgarðsins til að tengja nýjar virkjanir og til endurnýjunar, viðhalds og styrkingar flutningskerfisins til framtíðar.

Svo mörg voru þau orð. Ef við viljum nýta og jafnframt verja náttúrunna, sem við erum svo auðug af, getur það farið saman. Það þarf að ganga frá því við vinnslu þessa máls.

Virðulegi forseti. Miðhálendið hefur verið í vörslu þess fólks sem hefur byggt það, nýtt það, notað og verndað. Það er þess vegna sem við getum núna, 1100 árum eftir landnám, leyft okkur að viðra hugmynd um þjóðgarð á miðhálendinu. Framlag fólksins til verndunar hálendisins er gríðarlega mikilvægt.

Mig langar að lokum að vitna í grein sem birtist á www.visir.is í gær þar sem Friðrik Már Sigurðsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra, sem á land sem liggur inn í hálendið, skrifar. Það er kannski ódýrt að fara að lesa upp úr grein eftir hann en mér fannst bara að orð hans þyrftu að koma inn í þá vinnu sem fram fer í nefndinni. Þar segir:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“ Þessi fyrirætlan felur þannig í sér stofnun þjóðgarðs í sátt við sveitarfélögin. Mikilvægi samráðs og sáttar er einnig tilgreint sérstaklega í áformum um lagasetninguna sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda. Í umsögnum sveitarfélaganna Húnaþings vestra, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Húnavatnshrepps, Fljótsdalshrepps, Bláskógabyggðar, Rangárþings ytra auk annarra sveitarfélaga, er lýst verulegum áhyggjum af inntaki frumvarpsins og ganga þau jafnvel svo langt í bókunum sínum að leggjast alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Sú sátt sem tilgreind er í stjórnarsáttmálanum er því bersýnilega ekki til staðar. Af því leiðir að fyrirliggjandi frumvarp til laga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er ekki í samræmi við inntak stjórnarsáttmálans.

Svo frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra nái fram að ganga er nauðsynlegt að taka tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaganna til sjálfstjórnar. Hvað varðar mörk fyrirhugaðs þjóðgarðs á miðhálendinu verður samþykki sveitarstjórna að liggja fyrir ef um er að ræða landsvæði sem eru utan framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár. Lagasetning um stofnun eins heildstæðs þjóðgarðs á miðhálendi Íslands getur því ekki raungerst nema slíkt samþykki liggi fyrir. Þær áhyggjur sem fjölmörg sveitarfélög hafa lýst yfir í umsögnum sínum við frumvarpið beinast að einmitt þessu og eiga því við rök að styðjast. Af þessu leiðir að Alþingi getur ekki samþykkt frumvarpið í þeirri mynd sem það er í dag, slíkt myndi ekki taka tillit til stjórnarskrárvarinna réttinda sveitarfélaga til sjálfstjórnar. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra að stíga skref til baka og leita eftir samþykki sveitarstjórna vegna stofnunar Hálendisþjóðgarðs.“

Ég fer með þessa grein inn í þá vinnu sem er væntanlega að hefjast í umhverfis- og samgöngunefnd og óska ég þeim alls góðs í þeirri vinnu. Ég held að mörg sjónarmið sem hafa verið rædd hér í dag verði tekin til skoðunar þar. Þessi hugmynd er í stjórnarsáttmálanum og við erum bara að vinna að henni. Þetta er það stórt verkefni að það verður að myndast sátt og þetta verður að vera hugmynd sem flestra. Við eigum að ganga þannig inn í þá vinnu sem nefndin og við öll erum að fara í að við reynum til hins ýtrasta. Auðvitað er aldrei svo að allir verði sáttir, en alla vega eigum við að ganga eins langt og við mögulega getum ef sátt á að nást um þetta verkefni. Þetta er sameiginlegt verkefni sem við verðum að ná að lenda í sátt. Ef þau sveitarfélög sem liggja að þjóðgarðinum eiga að vinna með og kraftar þeirra sem vinna að verndun hálendisins að nýtast áfram þá verðum við að hafa þau með frá byrjun. Ég ítreka óskir mínar til nefndarinnar um farsælt starf í kringum þetta og megi það þá verða góð afurð sem út úr því kemur.