135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:11]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Auðvitað má alltaf deila um það hvort nóg sé að gert o.s.frv. Merki um aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna sjást nú þegar í fjárveitingum til geðheilbrigðismála barna og ungmenna í fjárlagafrumvarpinu. En það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að ekki er komin tímasett, útfærð aðgerðaáætlun. Stefnumörkunin liggur hins vegar fyrir, afar metnaðarfull stefnumörkun. Hv. þingmaður er að hverfa af Alþingi en ég vona að samflokksmenn hennar komi að útfærslu aðgerðaáætlunarinnar þegar hún kemur til kasta fagnefnda hér á Alþingi, og ég vonast til þess að allir geti sammælst um hana og verið samstiga í þeim skrefum sem þarf að stíga. Þessi metnaðarfulla aðgerðaáætlun, sem lögð var hér fram, kynnt og samþykkt, markar mjög stór spor í málefnum barna og unglinga á Íslandi.

Ég fagna því mjög að þetta skuli hafa verið eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar og sýnir það í hnotskurn að ríkisstjórnin ætlar á næstu fjórum árum að leggja áherslu á málefni barna og unglinga, þó svo — það er rétt hjá hv. þingmanni — að ekki séu komnir tímasettir fjármunir í öll þau góðu verkefni sem bíða á næstu fjórum árum.