149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

ályktanir miðstjórnar Framsóknarflokksins.

[14:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Þetta var viðbúið svar. Staðreyndin er auðvitað sú að þessum rökum hefur öllum verið meira og minna hafnað, enda bent á það að okkur stafi sennilega meiri heilsufarsleg ógn af ferðamönnum sem koma hér til landsins heldur en af kjötvörum sem fluttar eru inn, ferskar eða frosnar. Er ég þá ekki að gera mikið úr ógninni sem okkur stendur af ferðamönnum.

Það er alveg magnað að horfa upp á þetta ítrekað hjá Framsóknarflokknum og reyndar Framsóknarflokkunum öllum í ríkisstjórn þessa lands, hagsmunir neytenda eru alltaf fyrir borð bornir. Það er alltaf gengið úr skugga um það að við skulum greiða langtum hærra matvælaverð en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Auðvitað mætti halda áfram að telja. Hér er staðinn mjög þrálátur vörður um miklu hærra vaxtastig en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Framfærslukostnaður okkar er u.þ.b. 150.000 kr. hærri á fjögurra manna fjölskyldu vegna sérhagsmunagæslu þessara flokka. Um það skal áfram staðinn vörður. Þetta þykir mér afleit forgangsröðun, herra forseti.