149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að klára að fara yfir nefndarálitið mitt. Ég ætla að fjalla aðeins um málefnasviðin að lokum. Ég fór almennt yfir velferðarmál og þau svið í gær og ætla að reyna að klára hin núna. Þá ætla ég að byrja á nr. 1: Alþingi og eftirlitsstofnanir. Þar undir er umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, bæði mjög mikilvæg embætti, mjög mikilvægar stofnanir, bæði fyrir almenning og þingið, því að upplýsingarnar sem þingmenn fá gjarnan eru almennar umsagnir frá hinum og þessum samtökum og einstaklingum úti í bæ en að miklu leyti til fáum við sérfræðiálit og upplýsingar frá ráðuneytunum sem við erum í eftirliti gagnvart.

Það skýtur pínulítið skökku við að við séum ekki með ákveðna staðreyndavakt á þær upplýsingar sem ráðuneytin gefa okkur, enda hefur það komið fram, t.d. á þarsíðasta þingi þegar upplýsingar sem við fengum voru ekki allar upplýsingar sem málið varðaði. Það kom fram seinna að það voru meiri upplýsingar um t.d. Landsréttarmálið sem komu ekki fram fyrr en eftir að búið var að greiða atkvæði á þingi um það mál. Þá kom í ljós að öll sérfræðiálit innan ráðuneytisins ráðlögðu ráðherra gegn því að leggja í þá vegferð sem hún fór í. Þar er dæmi um hvað Alþingi stendur stundum vanmáttugt gagnvart þeim aðila sem Alþingi á að vera með eftirlit með. Þar hjálpar umboðsmaður Alþingis, fyrir t.d. einstaka borgara og almennar úttektir, og ríkisendurskoðandi einnig í yfirferð á hinum ýmsu málum tengdum fjárlögum og rekstri og því um líku.

Ég ætla að minnast örstutt á sveitarfélög og byggðamál, ekki efnislega heldur tæknilega séð út frá fjárlögunum. Þar er sagt að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækki um 985,9 milljónir. Útgjöldunum er skipt upp þannig innan þess málefnasviðs að bundin útgjöld og útgjaldasvigrúm hækkar en tæknilegu atriðin sem eru sögð útskýra hækkunina hækka bara um 528 millj. kr. Það er engin augljós samsetning á skiptingu útgjaldaaukningarinnar sem sýnir hvernig 985 milljónir skila sér inn í þennan málaflokk, út úr þessu málefnasviði.

Hér segir varðandi almanna- og réttaröryggi að veita eigi tímabundið 80 millj. kr. til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi með sérstakri áherslu á aðgerðir gegn fíkniefnasölu, -innflutningi og -framleiðslu. Það er tiltölulega óljóst hvernig á að nota þá fjármuni. Það er ekki auðlesanlegt úr stefnu stjórnvalda og ekkert kostnaðarmetið þar, að sjálfsögðu ekki. Það verður að viðhafa ákveðna varúð gagnvart því, slík fjárveiting ætti í rauninni að vera ótímabær. Ef það er ekki búið að taka upp stefnu um skaðaminnkun fyrst er veruleg hætta á að aukin fjárveiting til slíkra aðgerða geti bitnað með neikvæðum hætti á þeim vímuefnaneytendum sem um ræðir þarna.

Þetta er allt of stuttur tími, en aðeins um samgöngumál og fjarskiptamál. Ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingar um stórsókn í samgöngumálum en Samtök iðnaðarins komu á fund fjárlaganefndar og slógu þær yfirlýsingar einfaldlega niður með umsögn sinni, sýndu fram á hvernig framlögin eru langt undir meðaltali undanfarinna ára og í raun áratuga, þ.e. heildarmeðaltalinu fyrir hrun. Við erum rétt að ná í áttina að því meðaltali sem var 1,1% af vergri landsframleiðslu. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun var talað um að þegar upprunalega var farið í ákveðna stórsókn í vegakerfinu þurfti að ná jafnvel 2% til þess að standa undir samgöngukerfinu eins og það leggur sig. Við erum augljóslega langt frá því eins og er.

Það er góðra gjalda vert að leggja fram stórar yfirlýsingar. Nú hefur það verið skorið niður um rúmar 500 millj. kr. á milli umræða. Það gerist milli 1. og 2. umr. En þegar maður setur fram stórar yfirlýsingar verður annaðhvort að standa við þær eða draga þær til baka. Það er ekkert í því sem segir stórsókn í fjarskiptamálum þegar maður lítur til sögulegra staðreynda og heildarupphæðar þegar jafnt er á litið. Vissulega er þetta aukning frá fyrri árum en við erum að byrja á svo rosalega lágri tölu að við erum rétt að stíga fyrstu skrefin. Ég sé ekki stórsóknina enn þá og hana er heldur ekki að sjá í fjármálaáætlun.

Aðeins um sjávarútveg og fiskeldi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að umhverfi sjávarútvegsins sé sanngjarnt og stöðugt af hálfu stjórnvalda og beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að fram fari ítarlegri vinna um áhrif veiðigjalds á byggðir landsins. Ég bið virðulegan forseta að afsaka en ég verð að hallmæla því aðeins. Þetta er alger afneitun á kerfislægu vandamáli framsals veiðiheimilda. Þar er vandamálið. Það er alltaf betra að hafa veiðiheimildir og borga veiðigjald en að hafa engar veiðiheimildir fyrir byggðir landsins. Það er það sem hefur verið gerast með framsal veiðiheimilda, þær hafa einfaldlega horfið frá ýmsum svæðum og byggðum landsins. Þar þarf að skoða og fara fram ítarleg vinna um áhrif úthlutunar veiðigjalda á byggðir landsins og hvernig það kerfi hafi áhrif, ekki hvernig veiðigjaldið sjálft hafi áhrif. Það er bara bull, virðulegi forseti, svo að ég taki vægt til orða.

Meira um sjávarútveginn. Meiri hlutinn segir varðandi fyrirliggjandi veiðigjaldafrumvarp að það sé hvorki sanngjarnt né stöðugt og engin leið að átta sig á þeim talnagrunni sem gjaldið byggist á. Það er mjög klassískt. Það átti líka við um fyrra veiðigjaldafrumvarp. Það var einhvern veginn reynt að fela hvaða áhrif breytingarnar hefðu í raun til þess að reyna að troða málinu í gegnum þingið með sem minnstum upplýsingum. Það stefnir í það aftur, sýnist manni. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig það fer, en einnig er verið að bæta við, að því er mér sýnist, skilgreiningu á veiðigjöldum, að þau kallist skattur. Það hljómar ekkert öðruvísi en að verið sé að reyna að festa það í sessi, einhvern veginn fram hjá því ákvæði, að ekki eigi að myndast eign með úthlutun veiðiheimildanna. En þegar búið er að útfæra þau sem skatt á einhvern hátt er það skattur af eign. Einhvern veginn er verið að reyna að fara krókaleiðir í kringum lögin eins og þau líta út.

Síðast en ekki síst eru það umhverfismál. Þrátt fyrir að töluverðir fjármunir séu settir í málefnasvið umhverfismála er vandamál málefnasviðsins með tilliti til fjárlaga það sama og alls staðar annars staðar. Það er þetta vandamál: Það vantar sundurliðun á útgjaldaaukningu málefnasviðsins í fjárlögum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið var þó með eina bestu kynninguna af ráðuneytunum og færði fjárlaganefnd sundurliðun, eins og sést í fylgiskjali með nefndarálitinu. Það sem helst vantar er betri útskýring á mestu útgjaldaaukningunni, þ.e. til aðgerða í loftslagsmálum. Fyrsta útgáfa af aðgerðaáætluninni hefur verið gefin út en eins og önnur markmið og aðrar aðgerðir stjórnvalda er áætlunin ekki kostnaðarmetin. Við vitum bara að það eiga að fara 600 millj. kr. í hana á næsta ári. Við höfum ekki hugmynd um hvernig miðað er við að þeim fjármunum sé varið. Það er því hægt að nýta þá fjármuni í ýmsar aðgerðir en eftir stendur spurningin um skilvirkni og ef ekki liggja fyrir rýnanlegar kostnaðar- og ábatagreiningar er ekkert hægt að segja að verið sé að nýta féð á sem hagkvæmastan, bestan og skilvirkastan hátt.

Vissulega eru allar aðgerðirnar þarna betri en engin. Það er ekki hægt að gagnrýna. En áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er t.d. sú að við stöndumst ekki alþjóðaskuldbindingar, þurfum jafnvel að kaupa kolefniskvóta, eftir því sem okkur í samgöngunefnd hefur verið tjáð, sem gæti hljóðað upp á 12–20 milljarða. Við leggjum til 6 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar og ef ég skildi það allt rétt á þeim upplýsingafundi sem var fyrir umhverfis- og samgöngunefnd eru þetta 12–20 milljarðar á ári. Það er ástæðan fyrir því að ég vildi hafa þetta opið. Það er oft mjög kaótískt þegar svarað er hratt inni í nefndunum. En þetta eru þær upplýsingar sem ég náði að kría fram á þeim tíma.

Við erum að mæta 12–20 milljarða kr. áskorun með 6 milljörðum. Ég veit ekki hvort það dugir. Það er ólíklegt en maður (Forseti hringir.) vonar það besta. Við verðum að fá betri upplýsingar um þau mál og mig langar til að kalla eftir svipuðum fundi aftur í umhverfis- og samgöngunefnd en hafa hann opinn til þess að almenningur fái að heyra það frá fyrstu hendi, frá sérfræðingum, hversu stórt vandamálið er.