151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vildi líka bregðast við athugasemdum hv. þm. Birgis Ármannssonar um að málfrelsi þingmanna hefði ekki verið skert í þessu kófi. Það er einfaldlega ekki rétt. Við höfum fækkað þingdögum og eindregið hvatt þingmenn til að halda sig frá salnum nema þeir séu algerlega vissir um að þeir vilji taka til máls. Það er tiltölulega nýbúið að koma því þannig fyrir að allir þingmenn geti verið í þingsal á sama tíma og tekið almennilega þátt í atkvæðagreiðslum. Mikil pressa var sett á þingmenn að taka saman allar breytingartillögur og að rýmka verulega til þegar kemur að atkvæðagreiðslum um afbrigði. Mjög margt hefur verið sett á herðar þingmanna í því að skerða málfrelsi þeirra og þátttökurétt í lýðræðinu. Við höfum sýnt langlundargeð gagnvart því. Við höfum verið mjög skilningsrík gagnvart því. Mér þætti allt í lagi að það væri viðurkennt í staðinn fyrir að því væri afneitað eins og hv. þingflokksformaður gerir hér. Hann er kannski búinn að gleyma því hvernig þetta var í vor og sumar en ég er ekki búin að gleyma því. Þetta er orðið skárra núna, vissulega, en málfrelsi þingmanna var takmarkað, það er allt í lagi að viðurkenna það bara.