154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt áhugaverð. Hv. þingmaður flutti áhugavert þingmál á síðasta þingi sem var frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, afurðastöðvar í kjötiðnaði. Það gerði hann með nokkrum samflokksþingmönnum sínum úr Framsóknarflokknum og einum þingmanni Sjálfstæðismanna. Þar er eitt ákvæði þar sem segir:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Mér sýnist að þetta sé mjög samhljóða frumvarpi sem hv. þingmaður lagði fram á síðasta ári. Mig langar að spyrja hæstv. hv. þingmann: Er þetta frumvarp sama efnis og telur hann að markmiðunum sé náð með þessu frumvarpi hæstv. matvælaráðherra sem hann hugðist ná með frumvarpi sínu sem hann lagði fram í fyrra um sameininguna? Það er reyndar aðeins annars eðlis.

Mig langar líka að spyrja varðandi það — nú veit ég að hann er sauðfjárbóndi. Í greinargerðinni er m.a. vísað til „óviðunandi stöðu bænda og afurðastöðva, að leitað yrði leiða til að auka möguleika til samruna, aukins samstarfs og verkaskiptingar í kjötafurðavinnslu“. Telur hann að mikið hagræði náist með því að ákvæði samkeppnislaga, 10. og 12. gr., gildi ekki í samningum milli frumframleiðenda og með framleiðendafélögum? Hefur hann tilfinningu fyrir því hversu mikið hagræði það verði? (Forseti hringir.) Ég veit að þetta er einn kubbur í lausninni fyrir bændur en hversu stór?