135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hér líkt og varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, þakka öllum sem tóku þátt í þessari umræðu, stjórnarandstöðu jafnt sem stjórnarmeirihluta. Margt hefur verið sagt á umliðnum dögum. Við vorum hér 14 klukkutíma í gær og höfum verið eina 8 til 9 klukkutíma í dag að fjalla um þessi mál. Margar góðar ábendingar hafa komið fram, margt hefur verið skrafað og margt hefur verið farið yfir, hver á sínum forsendum.

Ég vil einungis segja tvennt í lokin. Það er auðvitað þannig að við í stjórnmálaflokkunum höfum ólíkar skoðanir á mörgum hlutum og það er okkar að bera það fram hér á Alþingi, það höfum við vissulega gert á umliðnum dögum.

Hitt atriðið tengist því sem við höfum minnst hér á, ekki bara ég heldur aðrir hv. þingmenn, og lýtur að verklagi við fjárlagagerðina, aðkomu fjárlaganefndar og aðkomu Alþingis og um leið að því hlutverki fjárlaganefndar sem varðar eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Ég vil nota tækifærið og þakka góðan hljómgrunn við skilaboðum hv. þingmanna í fjárlaganefnd og ekki síður öðrum sem vilja styðja við bakið á þeim breytingum. Ég ítreka að þrátt fyrir að við í fjárlaganefnd séum svolítið gagnrýnin á eigin vinnubrögð hefur nefndin og allar aðrar fagnefndir sem komið hafa að málum unnið með faglegum hætti og hafa allir lagt sig fram í hvívetna.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka starfsfólki Alþingis, sérstaklega starfsfólki nefndasviðs og fjárlaganefndar, sem hefur lagt á sig gríðarlega mikið erfiði síðustu daga og vikur, á það heiður skilinn fyrir sitt framlag. Einnig vil ég þakka öllum þeim sem sótt hafa fundi fjárlaganefndar, þeir skipta hundruðum, frá ráðuneytum, fjölmörgum félagasamtökum, — einstaklingar, sveitarfélög og fólk frá ýmsum stöðum þar sem menn bera fram erindi sín. Ég vona að við getum gert gott fjárlagafrumvarp enn betra hér á milli umræðna. Ég heiti því að leggja mig fram í hvívetna líkt og við höfum öll gert í þessari vinnu umliðna daga og vikur.