143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að ítreka þakkir til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar, fyrir að taka þátt í þessari umræðu með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Hann staðnæmdist nokkuð við stöðu Íbúðalánasjóðs og vildi réttlæta framlag í sjóðinn upp á 4,5 milljarða kr. á þessu ári og samsvarandi upphæð, ef ég skil rétt, á komandi ári. — Samtals 9 milljarðar kr. er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Hann var að lýsa áhyggjum yfir því að þessir fjármunir rynnu í sjóðinn. Ég var hins vegar með efasemdir um að það væri rétt á þessari stundu að láta þessa fjármuni renna þangað í ljósi þess að sjóðurinn hefur nægilegt, eftir því sem ég veit best, lausafé. Ég hefði haldið að þessum fjármunum á þessari stundu, með hliðsjón af okkar erfiðleikum í þjóðarbúinu, væri betur varið annars staðar. En það er verið að reyna að komast yfir ákveðið þrep varðandi eiginfjárstöðu sjóðsins.

Það eru reglur sem við höfum sett okkur og ég leyfi mér að hafa efasemdir um að gera það á þessari stundu. Ég leyfi mér að hafa efasemdir um það en það er umræða sem við eigum án efa eftir að taka síðar og almennt um stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að það var jú á vegum Alþingis gerð rannsóknarskýrsla um sjóðinn sem er núna til yfirferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Sú nefnd mun skila áliti í byrjun næsta árs, á fyrsta mánuði næsta árs ef allar áætlanir ganga eftir, og þá mun sjóðurinn koma til umræðu í þinginu.

Við vorum minnt á það af hálfu Pírata að vera lausnamiðuð í okkar umræðu um fjáraukann og fjárlögin og ég vil halda því fram að við séum það. Við erum að reyna að vera lausnamiðuð, það er mjög mikilvægt að við séum það. En ég held að það sé mjög mikilvægt að samtal sé á milli þingsins og þjóðarinnar um einstök mál. Þess vegna er gott að þessu sé ekki rumpað af í einum hvelli heldur gefist okkur í þinginu, ekki bara stjórninni heldur okkur þingmönnum almennt, ráðrúm til að hlusta á hvað samfélagið er að segja. Við höfum til dæmis verið að hlusta á unga vísindamenn að undanförnu. Ég vakti athygli á því í ræðu minni hér áðan hve miklu máli það skiptir að skerða ekki framlög til vísindarannsókna í landinu. Þarna aftur sannar gildi sitt samtalið á milli þings og þjóðar vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að endurskoða fyrri ákvarðanir um að skera niður framlag til Rannís, í rannsóknarsjóðinn þar, upp á rúmar 20 millj. kr., 221 millj. kr. hygg ég að það hafi verið, og eins til Tækniþróunarsjóðs en enn stendur niðurskurðurinn varðandi markáætlun Rannís og það eru líka peningar sem ganga til nýliðunar einkum í vísindastarfseminni.

Það er ekki nóg að við tölum fjálglega um mikilvægi vísindarannsókna. Við þurfum að láta orð fylgja. Ég vék að því að samfélagið hefði verið að ýta á okkur í þessu efni. Það er alveg rétt, við höfum heyrt unga vísindamenn tala á öldum ljósvakans og skrifa greinar í blöð og koma málstað sínum á framfæri. Ég var að grennslast fyrir um það hver væru laun þessa fólks, ungra vísindamanna sem ynnu hér að vísindastörfum og njóta þessara styrkja frá Rannís. Ég sagði að þeir sem hefðu lokið doktorsnámi væru að jafnaði að fá 305–315 þús. kr. á mánuði og nú hef ég fengið upplýsingar um það að þeir sem hafa ekki lokið slíku námi en vinna við vísindastörf fái 200 þús. kr., í allra mesta lagi 250 þús. kr. á mánuði. Ef við skerum þetta framlag niður um 200 milljónir kr., eins og til stóð að gera, þá erum við að tala um störf 30–40 ungra vísindamanna og það er lausnamiðað að taka umræðu um þetta efni upp og færa fram rök fyrir því að breyta eigi áherslunum hvað þetta varðar.

Það voru efni til þess að fá fram álitsgerð Samtaka iðnaðarins sem vöruðu við því að skorið yrði niður í tækniþróun eins og til stóð að gera. Aftur þarna er verið að hörfa þannig að þessi umræða okkar í þinginu er að skila árangri. Hún mætti skila miklu meiri árangri. Að sjálfsögðu hefðum við viljað breyta um grundvallaráherslur hjá stjórnvöldum.

Ég ræddi líka um prinsipp og prinsippleysi í sambandi við þessa umræðu um fjáraukalögin. Ég geri mjög skýran greinarmun á því sem er til langframa, fjárfestingaráætlun okkar til komandi ára sem byggði á fjáröflun — ég geri greinarmun á þessu annars vegar og því sem er að gerast á þessu ári hins vegar. Ég tel að það sé afar vafasamt þegar ríkisstjórn breytir forsendum í grundvallaratriðum á yfirstandandi fjárlagaári eins og þessi ríkisstjórn er að gera. Ég tel að hún hafi ekki heimild til að gera það, ekki siðferðilega heimild, varla pólitíska heimild. Hún hefur hins vegar heimild til að koma áherslum sínum í framkvæmd hvað varðar tekjuöflun og það er að sjálfsögðu hennar mál að keyra það í gegn að gefa stórútgerðinni skattafslátt upp á 6,4 milljarða kr. Henni er í sjálfsvald sett líka að falla frá auðlegðarskatti sem hefði gefið ríkissjóði yfir 9 milljarða kr. á komandi ári.

Það er líka hennar að falla frá því að hækka virðisaukann í ferðaþjónustuna, úr 7% í 14%, sem hefði gefið ríkissjóði hálfan annan milljarð á næsta ári. Það er henni í sjálfsvald sett líka að falla frá 5 þús. milljón kr. skatttekjum á millitekjufólk og að sjálfsögðu er það henni í sjálfsvald sett að setja tillögu fyrir þingið um að ráðast þess í stað að sjúku fólki og byrja að rukka fólk sem leggst veikt inn á sjúkrahúsin í landinu. Það stendur til að gera það á næsta ári.

Þetta eru pólitískar áherslur þessarar ríkisstjórnar og það er ekkert óeðlilegt að hún berjist fyrir þeim hugsjónum sínum að ívilna þeim sem standa betur að vígi í þjóðfélaginu og láta síðan hælinn yfir hina sem mega sín minna og hvað þá eru veikir. Þetta eru pólitískar áherslur. En á þessu fjárlagaári ber að standa við þau fjárlög sem voru samþykkt og gerð að lögum í lok síðasta árs og eiga að gilda um þetta ár. Það er fráleitt að fara að rugga til í því efni og ég tel það til framtíðar litið líka vera afar varasamt. Enda heyrir maður það núna víðs vegar í kerfinu að það gætir óróa og óöryggis og er ég þá ekki bara að vísa í þær sviptingar og þær sveiflur sem eru hér frá klukkustund til klukkustundar þar sem eina stundina er ákveðið að skerða stórlega barnabætur og næsta klukkutímann er okkur sagt að ekki eigi að gera það. Síðan er talað um skerðingu á framlögum til þróunarmála, horfið frá því að einhverju leyti, það veit enginn hvað kemur upp úr hattinum áður en yfir lýkur.

Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem engan veginn standast. Þannig er það rangt, sem fram kom hjá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að frumvarp til fjáraukalaga væri hugsað sem uppgjör við fjárlög ársins og væri endurspeglun á vanáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar. Það er alrangt. Það er þessi ríkisstjórn sem hefur breytt forsendum og á þann hátt sem mjög óeðlilegt hlýtur að teljast.