139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[11:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á því að taka til máls undir fundarstjórn forseta vegna orða hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar en ég sé mig tilneyddan til að gera það, frú forseti.

Varðandi umrædda skýrslu sem vitnað er til varðandi Hafrannsóknastofnun um innanverðan Skagafjörð er það alveg rétt að í fyrstu drögum hennar voru mjög miklar fullyrðingar um hvernig málið hefði verið unnið. Hún var síðan endurskoðuð og ég minni á að við hana eru miklir fyrirvarar. Það er líka alveg rétt að ég fór þess á leit — óformlega og engin nefnd var skipuð — við þá sem starfa hjá BioPol og Veiðimálastofnun í Skagafirði að þeir legðu mat sitt á skýrsluna. Þeir hafa ekki skilað neinni greinargerð. Ég fól síðan öðrum aðilum að skoða skýrsluna og aðra þá þætti sem (Forseti hringir.) þetta varðar, ég vildi fá umsögn annarra sérfræðinga um (Forseti hringir.) málið. Það liggur svo sem fyrir að skýrslan (Forseti hringir.) er ekki meira gagn en hún er.

Ég frábið mér (Forseti hringir.) slíkan málflutning sem hv. þingmaður hafði í frammi. Þó svo að Bjarni Jónsson sé sonur minn er hann líka virtur líffræðingur (Forseti hringir.) og á allan rétt á að starfa að þessu máli, hann er jafnframt í sveitarstjórn Skagafjarðar og forstöðumaður Veiðimálastofnunar í Skagafirði og stendur vel undir því.

(Forseti (SF): Forseti vekur athygli á því að tími hæstv. ráðherra er löngu liðinn.)

Já, og ég frábið líka mér málflutning eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson …

(Forseti (SF): Bið ég ræðumann að víkja úr ræðustóli.)

Aha.