143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég má til með að taka undir athugasemd hv. þingmanns og formanns þingflokks Samfylkingarinnar, Helga Hjörvars, um þessa hófstilltu fyrirspurn til hæstv. forseta um hvort til standi að greina þingheimi frá niðurstöðunni að því er varðar þingstörfin hér í kvöld. Það er kannski ofrausn að tala um þingheim eins og þingsalurinn hefur verið þunnt skipaður í kvöld. Það er synd að það skuli hafa þróast þannig, bæði að því er varðar umræðuna um fjáraukalögin sem og um bandorminn í dag og sérstaklega eftir að fór að líða á kvöldið. Það fer lítið fyrir því að fulltrúar stjórnarflokkanna, þá sérstaklega Framsóknarflokksins, taki öflugan þátt í umræðunni. Hér koma upp margar pólitískar spurningar sem væri gagn í að fá að ræða og reifa þannig að það væri ánægjulegt að sjá framsóknarmenn á mælendaskrá.