145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli á áskorun Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem skorar á ríki heims að standa við skuldbindingar sínar um móttöku flóttamanna. Talsmaður stofnunarinnar sagði á fréttamannafundi í morgun að það mætti ekki gera flóttamenn að blórabögglum vegna hryðjuverkanna eða jafnvel að nýjum fórnarlömbum þeirra. Það er rétt að við minnum okkur á að það fólk sem nú flýr í stríðum straumum að hluta til til Evrópu er að flýja einmitt þá ógn sem heimsótti París nú á síðustu dögum og okkur ber skylda til að taka þátt í því að taka á móti því fólki sem er að flýja slíkar hörmungar.

Í haust kom upp mikil umræða um málefni flóttamanna og svo kom útspil ríkisstjórnarinnar um móttöku flóttafólks. Það hefur nánast ekkert bólað á efndum og enn er verið að deila um kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga út af 55 flóttamönnum. Atburðirnir í París eiga að herða okkur. Við eigum að fjölga þeim flóttamönnum sem við ætlum að taka á móti og við eigum að endurskoða kostnaðaráætlunina. Boðað var að fara ættu í það um 2 milljarðar. Á þessu ári eru áætlaðar 775 milljónir í móttöku flóttamanna, alþjóðastofnanir og hælisleitendur. Megnið af því fé er ekki nýtt fé inn í málaflokkinn, heldur fé sem er verið að bæta upp vegna vanáætlunar á kostnaði við komu hælisleitenda hingað til lands.

Hæstv. forseti. Sem siðuð þjóð meðal þjóða og ábyrg í alþjóðasamfélaginu ber okkur að gera betur. Við verðum að taka á móti fleira fólki og við verðum að leggja til það fé sem þarf.


Efnisorð er vísa í ræðuna