Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Um allt annað mál, af því að ég fékk ekki að vita af því sem var verið að greina frá rétt áðan. Ég held mig bara við þau orð sem þar féllu. Ég var að benda á að það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem byrjuðu á því að ásaka alla hina í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um lekann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Forseti. Mig langar til að greina frá undarlegum upplýsingum sem við fengum í fjárlaganefnd í gær. Ég vil taka það fram að við fengum leyfi á fundinum til að vitna í orð gestanna. Þannig er mál með vexti að dómsmálaráðherra á við þó nokkurn vanda að etja. Fangelsismálin hjá honum eru í algjörum ólestri. Hættuástand er orð sem var notað á fundinum til að lýsa aðstæðum. 120 milljónir þarf í fjárauka fyrir árið í ár og 200 milljónir á því næsta. Bara til að halda því óbreyttu sem er nú í gangi — þið vitið neyðarástandinu — kemur ósk frá fjárlaganefnd um að fá upplýsingar um þær fjárheimildir sem vantar upp á, annars vegar fyrir fjáraukann og hins vegar fyrir fjárlögin af því að fjáraukabeiðni upp á 120 milljónir var hafnað í fjármálaráðuneytinu. Ég er forvitinn að eðlisfari og bað um sömu gögn og dómsmálaráðuneytið hefur sent fjármálaráðuneytinu vegna fjármálaáætlunar undanfarin ár — þið vitið að þetta er ekkert nýtt vandamál. Viðbrögðin voru ótrúleg. Þau gögn eru víst trúnaðarmál að beiðni fjármálaráðuneytisins. Gögn um hvaða uppbyggingarverkefni dómsmálaráðuneytið telur þurfa og sendir til fjármálaráðuneytisins vegna fjármálaáætlunar eru talin vera trúnaðargögn. Þetta eru skoðanir ráðherra og fagráðuneyta á því hvað þarf til að sinna þeim verkefnum sem lög gera ráð fyrir og okkur er sagt að þetta séu trúnaðargögn. Þetta er fáránlegt, algerlega kolrangt, enda kveða lög um opinber fjármál á um gagnsæi og ákveðna forgangsröðun verkefna. Hingað til hafa fangelsismálin endað undir niðurskurðarhnífnum og afleiðingin er orðin hættuástand. Sú forgangsröðun er á ábyrgð dómsmálaráðherra.